Vinátta og vellíðan í leikskólanum Uglukletti

febrúar 3, 2020
Featured image for “Vinátta og vellíðan í leikskólanum Uglukletti”

Í leikskólanum Uglukletti hefur verið unnið að þróunarverkefni sem nefnist Vinátta og vellíðan í skólasamfélagi og er styrkt af Sprotasjóði.

Sprotasjóður er sameiginlegur sjóður fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla og styður við þróun og nýjunga í skólastarfi í samræmi við stefnu stjórnvalda.  Markmið verkefnis er að auka vellíðan allra í skólasamfélaginu með því að efla skólabraginn.

Ætlunin var að samþætta verkefnið Vináttu í allt starf leikskólans og ná því fram að gildi vináttu væri rauði þráðurinn í gegnum daglegt starf auk þess sem áhersluþættir aðalnámskrár og skólanámskrár myndu endurspeglast í þeirri vinnu. Gildin eru eftirfarandi; umburðarlyndi, virðing, umhyggja og hugrekki.

Til að tryggja að allir þættir skólastarfsins myndu tengjast vinnunni með gildin fjögur úr Vináttunni var áætlað að safna saman á einn stað námsefni og hugmyndir, sem myndu styðja við hvert gildi og þætti aðal- og skólanámskrár.

Stefna leikskólans Uglukletts er að undirbúa börnin undir framtíð sem enginn veit hvað ber í skauti sér. Af þeim sökum var talið vænlegt að leggja megin áherslu á að efla félagslega hæfni, frumkvæði og sjálfræði barna. Í gegnum tíðina hefur mikið verið lagt upp úr vellíðan, það er að segja að börnum, starfsmönnum og foreldrum líði vel í leikskólanum. 

Markmið verkefnisins náðist og voru meðal annars gerðar námsáætlanir fyrir hvern árgang leikskólans. Inn í námsáætlanirnar fléttast námssvið Aðalnámskrár, helstu áhersluatriði í stefnu leikskólans auk markmiða og gilda hinna ýmsu verkefna og leiða sem unnið er með.


Share: