Þessa vikuna stendur yfir átaksvika sem nefnist Vina- og forvarnarvika í Borgarnesi og er að þessu sinni aðaláherslum beint að ungmennum á framhaldsskólaaldri og þeim unglingum í 10. bekk sem eru að fara í framhaldsskóla næsta haust.
Fjölmenni á fyrirlestri |
Verkefnið er nokkuð viðamikið og er samstarf þeirra sem sinna forvörnum í Borgarbyggð og á Akranesi og eru ungmennahús staðanna og nemendafélag fjölbrautarskólans í aðalhlutverki varðandi framkvæmd.
Auk þess koma félagsmiðstöðvar að
verkefninu og Grunnskólinn í Borgarnesi.
Hér í Borgarnesi hófst mögnuð dagskrá í ungmennahúsinu í Mími þar sem ungmennin fræddust um kynhegðun og áhættuþætti í kynlífi. Voru það ungir læknanemar úr Félagi læknanema sem fóru á kostum í fræðsluerindi sínu.
Á eftir var svo Halli Reynis trúbador með tónleika. Á sama tíma var dagskrá fyrir ungmenni á Akranesi í ungmennahúsinu þar.
Framundan eru sameiginlegir tónleikar ungmenna í Bíóhöllinni Akranesi í kvöld miðvikudagskvöld og hefjast þeir kl. 20.00 Hljómsveit úr Mími ungmennahúsi stígur þar á stokk.
Á föstudag verður íþróttadagur bæði á Akranesi og í Borgarnesi og verður farið með ungmennin í svokallað BootCamp æfingar kl. 18.00 í íþróttamiðstöðinni í Borgarnesi en nemendafélag fjölbrautaskólans verður með íþróttadag á Jaðarsbökkum.
Sundlaugardiskó verður svo fyrir ungmenni í Jaðarsbakkalaug.
Hér í Borgarnesi fara unglingar á grunnskólastigi til Hafnarfjarðar á forvarnarleikritið Hvað Ef og á Vina- og paraball í Óðali um kvöldið. Eftir helgina kemur svo leikstjóri verksins og forvarnarfulltrúi frá SÁÁ og fer yfir boðskap leikritsins með unglingadeildinni.
Sérstakar þakkir fá stuðningsaðilar þessa verkefnis sem eru Sparisjóður Mýrasýslu, KB-banki, Rauðikrossdeild Borgarfjarðar og Oddfellow stúka.
Já alltaf eitthvað jákvætt um að vera enda gleðin besta víman.
ij.