Í dag, 10. desember, var undirrituð viljayfirlýsing Reykjavíkurborgar og Borgarbyggðar um sameiningu Orkuveitu Reykjavíkur, Hitaveitu Borgarness og eignarhluta Borgarbyggðar í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar (HAB) frá 1. janúar 2002. Undirritunin fór fram í húsnæði Hitaveitu Borgarness að Sólbakka 15. Fulltrúar Reykjavíkurborgar við þessa undirritun voru Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri og Alferð Þorsteinsson formaður stjórnar Orkuveitunnar, ásamt starfsmönnum Orkuveitunnar.
Um næstu áramót verður Orkuveitunni breytt í sameignarfélag og verður Borgarbyggð þar eignaraðili. Eignarhlutur Borgarbyggðar í Orkuveitu Reykjavíkur sf verður 0,75%. Við þessa breytingu verður sama gjaldskrá á heitu vatni í Borgarnesi og í Reykjavík sem þýðir um fjórðungs lækkun á hitaveitutöxtum hjá íbúum í Borgarnesi. Starfsmönnum Hitaveitu Borgarness verða tryggð áframhaldandi störf hjá sameinuðu fyrirtæki. Í framhaldi sameiningar mun Orkuveitan leggja áherslu á að kanna möguleika þess að veita þjónustu í hinum dreifðari byggðum Borgarbyggðar og jafnframt verður kannað með aðkomu Orkuveitunnar að rekstri vatnsveitu í Borgarbyggð.
Framundan eru umtalsverðar breytingar í orkumálum landsmanna sem hefur þegar leitt til stækkunar rekstrareininga á þessum markaði. Markmið Borgarbyggðar með þessu samkomulagi eru að tryggja sama verð á heitu vatni í Borgarnesi og í Reykjavík til framtíðar og að öflugur aðili eins og Orkuveitan komi að veituframkvæmdum í dreifbýlinu. Hvoru tveggja er mikilvægur áfangi í að treysta búsetuskilyrði íbúa sveitarfélagsins og í að koma til móts við þarfir sívaxandi frístundabyggðar. Allar framkvæmdir á þessu sviði krefjast þekkingar og fjármagns sem Orkuveitan býr yfir.
Af þessu má ljóst vera að Borgarbyggð er með væntingar um að sameining veitufyrirtækja sveitarfélagsins við Orkuveitu Reykjavíkur verði til að styrkja svæðið sem búsetukost og er ástæða til að bjóða fyrirtækið velkomið þegar það heldur innreið sína í landnám Skallagríms.