Æskulýðsball 2001

desember 4, 2001

Fimmtudaginn 29. nóvember sl. var haldið árlegt forvarnar og æskulýðsball á vegum Nemendafélags Grunnskólans í Borgarnesi og félagsmiðstöðvarinnar Óðals. Ballið var haldið á Hótel Borgarnesi.

Þarna voru samankomnir unglingar úr 12 skólum og félagsmiðstöðvum af Vesturlandi alls um 340 manns.
Að venju voru skemmtiatriði frá skólunum sem tóku þátt auk þess sem Dóra Guðrún frá Geðvernd hélt fyrirlestur um mikilvægi þess að vera jákvæður og leita sér hjálpar ef að eitthvað bjátar á og fjallaði um önnur málefni ungmenna í nútímasamfélagi. Áberandi voru hljómsveitir sem tróðu upp frá skólunum en þær voru fjórar og allar mjög frambærilegar. Einnig voru önnur
skemmtiatriði í boði s.s. leikir, glæsileg dansatriði o.fl.
Að lokum steig svo hljómsveitin Írafár á stokk og spilaði til miðnættis.
Þrátt fyrir leiðindaveður þetta kvöld náðu allir skólarnir á áfangastað og mættu þeir fyrst sem fóru lengst en það voru hressir unglingar frá Hólmavík.
Er þetta í níunda skiptið sem ballið hefur verið haldið og er þetta hugmynd unglinganna sjálfra hvernig standa megi að forvarnarstarfi.
Að sögn Birgittu söngvarans í Írafári hafa þau félagarnir sjaldan eða aldrei spilað fyrir jafn fjörugan hóp unglinga.

Fréttahaukar Óðals
B.Þ. & M.B.


Share: