Í síðustu viku var tekin ákvörðun um að loka 10. bekkjar kennslustofum í Grunnskólanum í Borgarnesi vegna gruns um myglu. Í gær var síðan ákveðið að loka stofum sem staðsettar eru fyrir neðan umræddu stofur sem voru innsiglaðar í síðustu viku vegna lyktar sem fundist hefur þar. Sýni verða tekin á allra næstu dögum og munu niðurstöður liggja fyrir á næstu tveimur til þremur vikum.
Starfsfólk grunnskólans hefur unnið hörðum höndum við að finna lausnir og endurskipuleggja skólastarfið til þess að bregðast við ástandinu. Skólastjórnendur leggja áherslu á að halda börnum á skólasvæðinu til að lágmarka rask í skólastarfi.
Það skal taka fram að ekki er búið að staðfesta myglu í húsnæðinu en nauðsynlegt er að grípa til aðgerða strax. Öryggi nemenda og starfsfólks er ávallt í fyrirrúmi og því ekki forsvaranlegt að vera með kennslu í stofunum þar til niðurstöður úr sýnatöku liggja fyrir. Stjórnendur eru einnig að kortleggja sviðsmyndir ef í ljós kemur að umræddar stofur verða lokaðar í vetur.
Borgarbyggð þakkar foreldrum og forráðamönnum fyrir skilninginn undanfarna daga.