Byggðarráð Borgarbyggðar fjallaði um vetrarþjónustu Vegagerðarinnar í uppsveitum Borgarfjarðar á fundi sínmum þann 12. janúar s.l. og var eftirfarandi ályktun samþykkt.
„Á undanförnum árum hefur átt sér stað mikil uppbygging ferðaþjónustu í uppsveitum Borgarbyggðar. Aðsókn ferðafólks að þessu svæði hefur stóraukist og á það jafnt við um sumar og vetur. Tugir þúsunda koma í Íshellinn í Langjökli og fer aðsókn að honum vaxandi jafnt og þétt. Ferðir á Langjökul njóta sívaxandi vinsælda. Mikil uppbygging hefur átt sér stað í Húsafelli með byggingu hótels Húsafells og uppbyggingu annarrar afþreyingar fyrir ferðafólk á því svæði. Verið er að stækka hótel Reykholt, hótel Á er rekið að Kirkjubóli í Hvítársíðu, ferðaþjónustan við Víðgelmi er rekin allt árið svo og veitingarekstur að Brúarási. Mikil uppbygging stendur síðan yfir í Deildartungu. Norðurljósaferðir á þetta svæði njóta sívaxandi vinsælda og er Logaland orðinn vinsæll áningarstaðir i því sambandi. Þannig mætti áfram telja. Öll þessi starfsemi er rekin allt árið þannig að það er liðin tíð að ferðaþjónusta sé bundin við sumarmánuðina. Samhliða þessu hefur búseta á svæðinu styrkst og þörf fyrir skólaakstur aukist. Þrátt fyrir þessa þróun þá hefur vetrarþjónusta Vegagerðarinnar ekki þróast í samræmi við hina miklu atvinnuuppbyggingu í þessum hluta héraðsins. Enn er einungis mokað tvo daga í viku í uppsveitum Borgarfjarðar. Það er óviðunandi staða fyrir atvinnustarfsemi sem rekin er allt árið. Það á bæði við um almennar samgöngur að vetrarlagi svo og öryggi ferðafólks í vetrarfærð. Vegna snjólétts vetrar það sem af er þessum vetri hafa hingað til ekki hlotist mikil vandræði af þessu fyrirkomulagi sem betur fer. Á hagstætt veðurfar er hins vegar ekki hægt að treysta í öllum árum. Byggðarráð Borgarbyggðar gerir því þá kröfu til Vegagerðarinnar að vetrarþjónusta verði stórbætt á þessu svæði. Vegir inn að Húsafelli verði mokaðir verði með þeim hætti að öryggi í samgöngum verði tryggt bæði fyrir íbúa, fyrir þau fyrirtæki sem eru starfrækt á þessu svæði svo og fyrir ferðafólk sem er yfirleitt óvant akstri í vetrarfærð. Bætt þjónusta í þessum efnum er forsenda þess að sú mikla uppbygging sem átt hefur sér stað í uppsveitum Borgarfjarðar geti þróast áfram og eflst eins og allar forsendur eru til staðar um að geti gerst.“ |