Vesturland verðlaunað sem einn af áhugaverðustu áfangastöðum heims

október 27, 2015

Síðdegis í dag var tilkynnt að landshlutinn Vesturland er einn af áhugaverðustu áfangastöðum heims 2016 samkvæmt leiðsögubóka-útgefandanum Lonely planet. Vesturland hefur átt hlut í þeim vexti sem ferðaþjónustan hefur upplifað síðastliðin ár. Þjónusta og afþreying hefur verið að byggjast upp og eru mörg fyrirmyndarfyrirtæki kominn á legg. Nú er landshlutinn talinn hafa mikla sérstöðu á heimsvísu þegar kemur að vetrarferðamennsku og nýtur Vesturland góðs af því að vera aðgengilegt. Nálægð við höfuðborgina og snjóléttir vetur eru sagðir gera Vesturland að spennandi kosti fyrir ferðamenn. Þessi viðurkenning er gríðarlega mikilvæg á heimsvísu því nú er Vesturland á topp tíu lista Lonely Planet yfir svæði til að heimsækja í heiminum á næsta ári. Aðrir flokkar en svæði sem fá tilnefningar eru lönd og borgir.
,,Þetta er mikil viðurkenning fyrir Vesturland sem áfangastaður. Það eru fyrirtækin á svæðinu sem eiga heiðurinn af þessu. Nýsköpun á svæðinu hefur verið mikil síðastliðið ár og þjónustu stigbatnað,” segir Kristján Guðmundsson forstöðumaður Markaðsstofu Vesturlands í samtali við Skessuhorn. Kristján mun taka á móti verðlaunum fyrir hönd Vestlendinga en þau verða afhent í Lundúnum um næstu helgi.
Í tilkynningu frá Lonely Planet segir m.a.: „Vesturland er á listanum yfir áhugaverðasta svæði heims sökum rólyndislegs yfirbragðs svæðisins auk þess sem gott er að gera út frá Vesturlandi þegar kemur að því að kanna náttúru. Fallegir fossar, gott aðgengi að jöklum, eldfjöll og hraunbreiður eru meðal sérstöðu svæðisins. Mikil saga sem svæðið hefur uppá að bjóða bætir einnig sérstöðu Vesturlands.“
Heimild: Skessuhorn.
 

Share: