Vinnu við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir hið einstaka búsvæði fugla í Andakíl er nú lokið. Áætlunin verður formlega undirrituð af Guðmundi Inga Guðbrandssyni umhverfisráðherra á Hvanneyri síðasta vetrardag, miðvikudaginn 24. apríl kl. 18:00 í nýrri gestastofu í Halldórsfjósi. Allir hjartanlega velkomnir.
Svæðið var friðlýst sem búsvæði fugla árið 2011 og árið 2013 var það skráð á lista Ramsar-samningsins yfir alþjóðlega mikilvæg votlendissvæði. Árið 2017 fékk Landbúnaðarsafn Íslands styrk til að setja upp gestastofu í Halldórsfjósi á Hvanneyri, sem verður vígð á miðvikudaginn kemur.
Nýja verndaráætlunin gildir út árið 2028 og með henni fylgir aðgerðaáætlun til fimm ára. Aðgerðaráætlunin gerir grein fyrir forgangsröðun þeirra aðgerða Umhverfisstofnunar sem brýnast er að grípa til svo verndargildi Andakíls haldist. Að fimm árum liðnum er áætlað að meta árangur verndarráðstafana og endurskoða og uppfæra áætlunina.
Meginmarkmið með gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Andakíl er að draga fram sérstöðu svæðisins og leggja fram stefnu um hvernig viðhalda megi verndargildi þess í sátt við landeigendur, heimamenn og aðra samráðs- og hagsmunaaðila. Verndarsvæðið í Andakíl er mjög ólíkt öðrum verndarsvæðum hér á landi að því leyti að innan þess eru bújarðir og þéttbýli með margvíslegri starfsemi. Í áætluninni er verndarsvæðinu skipt upp í fimm svæði og er stefna varðandi umgengni, innviði og nytjar mismunandi eftir eðli svæðanna.
Fréttaskot Umhverfis-og skipulagssviðs nr. 12