Verkefni á sviði byggingarfulltrúa

febrúar 22, 2019
Featured image for “Verkefni á sviði byggingarfulltrúa”

Á skrifstofu byggingarfulltrúa er sjaldnast lognmolla. Verkefnin eru fjöldamörg og dreifð um allt sveitarfélagið. Í Borgarbyggð eru skráð yfir 1.300 sumarhús og mikill fjöldi til viðbótar í byggingu eða unnið að endurbótum þeirra. Auk þess er héraðið blómlegt landbúnaðarsvæði og mikið um nýbyggingar í sveitum eða endurbætur á landbúnaðartengdu húsnæði. Breytingar og endurbætur á húsnæði tengdu ferðaþjónustu hafa einnig verið mjög áberandi undanfarin ár. Þónokkur uppbygging á sér jafnframt stað í þéttbýliskjörnum sveitarfélagsins um þessar mundir.

Dæmi  um stór verkefni í byggingu eða langt komin:

  • Borgarbraut 57-59 (íbúðarblokk, hótel og verslanir/skrifstofur)
  • Hótelbygging í gamla húsmæðraskólanum á Varmalandi
  • Stækkun á Hótel Reykholti
  • Stækkun á Hótel Hamri
  • Stækkun og endurbætur á Grunnskólanum í Borgarnesi
  • Nýtt verslunarhúsnæði við Digranesgötu 4
  • Stækkun kaupfélagsins við Egilsholt 1

Í hverjum mánuði berast nýjar umsóknir um stór jafnt sem smá verk, ásamt fyrirspurnum af ýmsu tagi. Opin mál hjá byggingarfulltrúa eru á fimmta hundrað. Byggingarmál telst opið þar til lokaúttekt hefur farið fram og gengið endanlega frá skráningu mannvirkisins. Stór hluti mála hjá byggingarfulltrúa í Borgarbyggð tekur að jafnaði um eða yfir 5 ár, t.d. bygging sumarhúsa.

Þórólfur Óskarsson er byggingarfulltrúi í Borgarbyggð en með honum í teymi eru þau Hlynur Ólafsson og Sólveig Ólafsdóttir. Teymið heldur utan um öll mál embættisins, skráningar, úttektir, skönnun á teikningum, umsagnir og úttektir vegna rekstrarleyfa og ýmislegt sem til fellur. Verklag og vinnuferlar hjá starfsfólki eru í sífelldri þróun í takt við nýjustu reglugerðar- og lagabreytingar. Innleiðing er nú langt komin á nýju umsóknakerfi fyrir byggingarleyfi og önnur erindi er varða byggingarfulltrúaembættið. Vonast er til að kerfið muni koma sér vel fyrir umsækjendur og aðra málsaðila, ásamt því að efla nauðsynlegt utanumhald og eftirfylgni við umsóknir.

Viðtalstímar hjá starfsmönnum byggingarfulltrúa er sem hér segir:

  • Símatímar: kl. 10-11 þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga
  • Viðtalstímar: kl. 11-12 þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga

Vinsamlegast sendið fyrirspurnir á netfangið bygg@borgarbyggd.is

Fréttaskot Umhverfis-og skipulagssviðs nr. 5


Share: