Vel heppnuð ferð á Samféshátíð

mars 7, 2005
 
Unglingarnir okkar í Óðali voru til fyrirmyndar þegar farið var á Samféshátíðina um síðustu helgi sem að þessu sinni var haldin í Íþróttamiðstöðinni Mosfellsbæ.
 
Samtals fóru 94 unglingar og fjórir fararstjórar í ferðina frá Óðali og var gist í Félagsmiðstöðinni Bólinu Mosfellsbæ.
 
Unglingahljómsveitin Mad Mongoos úr Óðali var ein af þrjátíu böndum sem sóttu um að spila á litla sviðinu og voru strákarnir svo heppnir að vera ein af sex hljómsveitum sem dregnar voru út til að spila og stóðu þeir sig frábærlega í kröftugum flutningi sínum en þeir eru einmitt á leiðinni á Músiktilraunir til að spila þar. Samfésballið var sem sagt á föstudagskvöldið og var mikið stuð þegar 3.500 unglingar frá félagsmiðstöðum landsins dönsuðu við leik bestu hljómsveita landsins á stóra sviðinu.
Daginn eftir stormuðu svo allir unglingar úr Óðali saman á skauta í Egilshöll og voru þar sýndir margir góðir taktar.
Seinni part laugardags var svo sjálf Söngvakeppni Samfés og fulltrúar Vesturlands þær Martha Lind, Gunnhildur Lind og Hugrún Bjarnadóttir úr Óðali slógu í gegn og áttu salinn með frábærum flutningi sínum og komust meira að segja á pall þegar þeim var veitt viðurkenning fyrir”Athygliverðasta atriðið” í keppninni.
Það er ekki leiðinlegt að komast í verðlaunasæti með flottasta atriðið en 29 atriði voru flutt á keppninni og komast þær því á geisladisk Samfés með lag sitt sem verður gefin út með bestu lögum úr keppninni.
 
Starfsfólk hátíðarinnar töluðu sérstaklega um hve kurteisir unglingar hefðu komið úr Borgarbyggð og er það heldur betur verðmætasta og mikilvægasta hrósið í þessari ferð.
Unglingar í Grunnskólanum í Borgarnesi og Grunnskólanum Varmalandi sem fóru í þessa frábæru ferð …til hamingju.
i.j.
 

Share: