Vel heppnaður borgarafundur um einelti

mars 20, 2013
Íbúar Borgarbyggðar fjölmenntu í Hjálmaklett þriðjudagskvöldið 19. mars þar sem haldinn var borgarafundur um einelti. Yfirskrift fundarins var „Það þarf heilt þorp til að ala upp barn“ og það sýndi sig vel að íbúar Borgarbyggðar láta sig þetta mál varða. Ríflega 500 manns, íbúar á öllum aldri og alls staðar að úr sveitarfélaginu, vörðu saman kvöldinu og hlýddu á frábæra fyrirlesara fjalla um einelti út frá ýmsum hliðum.
Páll Óskar Hjálmtýsson og Magnús Stefánsson hjá Marita fræðslunni sýndu stuttmynd sem Magnús hefur gert um æsku Páls Óskars, en hann var lagður í einelti alla sína grunnskólagöngu. Eftir myndina sagði Páll Óskar frá upplifun sinni sem þolandi eineltis og því hvernig honum hefur tekist að vinna sig út úr þeirri vanlíðan sem slíku fylgir. Því næst sagði Magnús frá sinni upplifun sem gerandi í eineltismáli þegar hann var unglingur. Framsaga þeirra beggja var áhrifarík og vakti upp blendnar tilfinningar hjá fundargestum. Sumir þeirra stóðu upp og deildu eigin reynslu af eineltismálum.
Vilborg Guðnadóttir frá BUGL steig næst í pontu og fræddi fundargesti um læknisfræðilega hlið á afleiðingum eineltis og að lokum tók fulltrúi Samfok, Bryndís Jónsdóttir til máls og flutti erindi sem hún kallar „Foreldrar gegn einelti“.
Það voru þær Kristín Gísladóttir og Sigrún Katrín Halldórsdóttir, mæður grunnskólabarna í Borgarbyggð, sem áttu hugmyndina að borgarafundinum og sáu um allan undirbúning og framkvæmd fundarins. Markmið þeirra var að vekja samfélagið allt til umhugsunar um einelti og afleiðingar þess og leggja sitt af mörkum til að skapa betra samfélag og efla samstöðu meðal íbúa sveitarfélgsins. Þær nálguðust verkefnið með jákvæðni að leiðarljósi og vildu um leið skapa meðbyr hjá fólki til að vinna með í baráttunni að fundi loknum. Ef marka má viðbrögð fundargesta er óhætt að segja að þær hafi náð markmiði sínu og vel það.
Fyrir hönd sveitarfélagsins færi ég þeim Kristínu og Rúnu bestu þakkir fyrir frumkvæðið og óeigingjarnt starf í þágu okkar allra og hvet íbúa til að leggja sitt af mörkum til að tryggja að einelti fái ekki þrifist í samfélaginu okkar.
 
Ásthildur Magnúsdóttir fræðslustjóri

Share: