Vegna yfirvofandi verkfalls leikskólakennara

ágúst 19, 2011
Næstkomandi mánudag, 22. ágúst, hefst verkfall leikskólakennara, hafi ekki náðst samningar fyrir þann tíma. Komi til verkfalls hefur það í för með sér að allir félagsmenn í Félagi leikskólakennara (FL) leggja niður störf og mun það hafa mikil áhrif á starfsemi leikskóla Borgarbyggðar.
 
Ágreiningur er á milli samninganefnda Sambands íslenskra sveitarfélaga og FL um rétt sveitarfélaganna til að hafa leikskóladeildir opnar. Komi til verkfalls verður málinu vísað til úrskurðar Félagsdóms.
 
Byggðarráð Borgarbyggðar hefur samþykkt að komi til verkfalls muni leikskólar sveitarfélagsins starfa í samræmi við tilmæli FL um starfsemi leikskóla í verkfalli, þangað til Félagsdómur hefur komist að niðurstöðu.
 
Það er því ljóst að allar deildir þar sem deildarstjóri er í Félagi leikskólakennara verða lokaðar og börn á þeim deildum geta ekki komið í leikskólann.
Í leikskólum þar sem deildir verða opnar munu leikskólastjórar skipuleggja starfsemina með tilliti til aðstæðna og munu þær um helgina senda foreldrum upplýsingar um það hvort og hvenær börn þeirra geti sótt leikskóla.
 
Opnunartími deilda í leikskólum Borgarbyggðar verður eftirfarandi:
 

Leikskólinn Andabær á Hvanneyri

Goðheimar (eldri deild) verður opin klukkan 08:00-16:00 mánudag til miðvikudags og klukkan 08:00-15:00 fimmtudag og föstudag.
Hulduheimar (yngri deild) verður lokuð.
 

Leikskólinn Hnoðraból Reykholtsdal

Leikskólinn verður opinn alla daga klukkan 08:30-12:30.
 

Leikskólinn Klettaborg Borgarnesi

Ólátagarður (yngsta deild) verður opin klukkan 07:45-13:50
Sjónarhóll (elsta deild) verður opin klukkan 12:00-16:00
Kattholt verður lokað.
 

Leikskólinn Ugluklettur Borgarnesi

Allar deildir verða lokaðar.
 
Ríkissáttasemjari hefur boðað deiluaðila til fundar og reynt verður til þrautar um helgina að ná samkomulagi svo ekki þurfi að koma til verkfalls.
 
Foreldrar barna í leikskólum Borgarbyggðar eru hvattir til að fylgjast vel með fréttum af samningaviðræðum og tilkynningum á heimasíðu Borgarbyggðar.

Share: