Vegna lúpínuátaks á Búðarkletti

júní 14, 2016
Featured image for “Vegna lúpínuátaks á Búðarkletti”

Af gefnu tilefni er áréttað að Borgarbyggð hefur ekki skipulagt  herferð gegn útbreiðslu lúpínu í landi sveitarfélagsins. Lúpínuátak sem auglýst er á Búðarkletti miðvikudaginn 15. júní einskorðast við Búðarklett  og er því einungis um örlítið brot af þeirri lúpínu sem náð hefur fótfestu í bæjarlandinu að ræða.  Þegar sótt var um styrk til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða vegna Söguhringsins í Borgarnesi, var hluti af umsókninni umhverfisátak á þessu afmarkaða svæði, sem felst í því að eyða ágengum tegundum og gera tilraun  til að halda í það gróðurfar sem fyrir er á klettinum, sem er að mestu graslendi. Sjá frétt um styrkveitinguna hér https://borgarbyggd.is/frettaflokkur/styrkur-ur-framkvaemdasjodi-ferdamannastada-soguhringur/ Þess má geta að lúpínu hefur verið haldið í skefjum á Vesturnesi af íbúum sem ekki vilja sjá tegundir eins og eini og umfeðming hverfa í lúpínubreiðu. Það hefur ekki verið fyrir tilstilli sveitarfélagsins, eða á öðrum svæðum þar sem íbúar hafa skorið niður lúpínu í nágrenni garða sinna. Til að uppræta ágengar tegundir líkt og lúpínu þarf langtíma áætlun og mikla vinnu og slík stefna hefur ekki verið mörkuð í sveitarfélaginu. Þannig má ætla að þrátt fyrir að það náist árangur í að halda lúpínu í skefjum á afmörkuðum stað á  Búðarkletti, sé talsvert af öðrum svæðum þar sem lúpínan fær að vaxa óáreitt.  


Share: