Varmalandsskóli 50 ára

maí 18, 2005
Það þykir ávallt nokkur áfangi að verða 50 ára. Þá þykir amk. afmælisbarninu að nokkuð virðulegum aldri sé náð en það sé þó enn í fullu fjöri. Enda er aldur afstæður og ræðst af hugarfari hvers og eins.
Þann 21. maí n.k. eru 50 ár frá því fyrsta skólavetri lauk í Varmalandsskóla. Þetta hefur verið stór áfangi árið 1955 fyrir íbúa þeirra sveitarfélaga sem að skólanum stóðu.
Í dag stendur Varmalandsskóli styrkum fótum, rekinn í byggðasamlagi Borgarbyggðar og Hvítársíðuhrepps. Skólinn hefur löngum haft orð á sér fyrir gott starf og árangursríkt. Skólahverfið eru uppsveitir Borgarbyggðar og hluti Hvítársíðuhrepps. Fyrir u.þ.b 10 árum hafði nemendum í Varmalandsskóla fækkað töluvert. Á þessum tíma tók aðsókn að Viðskiptaháskólanum á Bifröst í Norðurárdal að aukast og mikil uppbygging átti sér stað þar. Við það tók nemendafjöldinn á Varmalandi mikinn kipp. Síðan hefur fjöldi nemenda aukist ár frá ári og eru nú um 170 börn í skólanum. Börn nemenda í Viðskiptaháskólanum á Bifröst eru ríflega helmingur nemenda. Það er mikil áskorun fyrir starfsmenn Varmalandsskóla að starfa í slíku umhverfi þar sem saman fara þarfir dreifbýlisins, börn bænda og íbúa í dreifbýli annarsvegar og hinsvegar börn háskólanema sem búa í campus samfélagi í 3-4 ár þar sem hraði viðskiptalífsins er við völd.
 
Heimsborgarabragur
Að lang flestu leyti hefur þessi sambúð gengið vel. Íbúar Borgarbyggðar gera sér grein fyrir mikilvægi uppbyggingarinnar að Bifröst og ágæt samskipti eru milli stjórnenda Viðskiptaháskólans og Varmalandsskóla þó menn séu ófeimnir að tjá hug sinn ef þannig ber undir. Því er hinsvegar ekki að neita að ólíkur taktur þessara samfélaga veldur ákveðnu álagi á starfsmenn og nemendur. Foreldrar barna í dreifbýlinu tala hinsvegar um þessar aðstæður sem jákvæðar og að hún veiti í raun þeirra börnum ákveðið forskot í mannlegum samskiptum og ákveðinn heimsborgarabrag. Foreldrar barna á Bifröst eru svo á móti ánægðir með það að þeirra börn fái að kynnast sveitalífinu og þeirri menningu sem sveitaskólar eru þekktir fyrir. Þessir menningarheimar styrkja því hvorn annan þar sem þeir koma saman í grunnskólanum á Varmalandi. Þriðji hlekkurinn í þessum menningarheimi skólans eru börn sem vistuð eru á sveitaheimilum á vegum Félagsmálastofnunar. Undanfarin ár hefur það aukist að í sveitarfélaginu séu vistuð börn á fósturheimilum. Óhætt er að fullyrða að skólabragurinn og aðstæður á Varmalandi séu sérstakar þar sem börnin koma úr ólíku umhverfi. Öllu þessu tekst þó skólastjóra og starfsmönnum skólans að púsla saman og reka frábæran skóla.
Á árinu 2002 var húsnæði fyrir kennslu í skólahúsinu orðið of lítið vegna fjölgunar nemenda. Var brugðið á það ráð að leigja Húsmæðraskólann gamla af ríkinu og ári síðar festu sveitarfélögin Borgarbyggð og Hvítársíðuhreppur kaup á húsnæðinu og öllum eignum ríkisins á staðnum. Þær eigur samanstóðu af Húsmæðraskólahúsinu, 8 ha lands, vatnsréttindum og eignarhluta í íþróttamannvirkjum. Nýting Húsmæðraskólans til kennslu fyrir elstu bekkina er ákveðin lausn en taka þarf ákvörðun um hvaða fyrirkomulag sveitarfélögin vilja hafa á húsnæðismálum skólans í framtíðinni. Að reka grunnskóla í þessum tveimur húsum hefur ákveðna kosti og einnig galla. Það er kostnaðarsamara og slítur í sundur kennarahópinn en kostirnir eru þeir að aldurshópar nemenda hafa hver um sig sitt svigrúm. Vega þarf og meta alla þætti áður en ákvörðun verður tekin.
Þegar sveitarfélögin eignuðust land það sem skólinn stendur á var hægt að hefja deiliskipulagsvinnu fyrir svæðið og stendur sú vinna nú yfir. Er þar um að ræða að skipuleggja svæði fyrir íbúðabyggð en þær íbúðir sem eru í útleigu á vegum skólans eru flestar orðnar barn síns tíma og uppfylla ekki þær kröfur sem fólk gerir til íbúðarhúsnæðis í dag.
Þá eru lóðir skólanna og leiksvæði annar hluti þessarar skipulagsvinnu þó að umhverfi skólanna sé að mörgu leyti mjög gott og glæsilegt eru ýmsir hnökrar á s.s. að akandi umferð er of mikil um svæðið, bílastæði þarf að lagfæra og byggja upp leiksvæði fyrir ólíka aldurshópa. Í þessari vinnu verður einnig gert ráð fyrir að hægt sé að byggja við núverandi skólahúsnæði ef sú lausn verður ofaná.
Skóla- og rekstrarnefnd Varmalandsskóla vinnur nú að því að undirbúa tillögur til kynningar fyrir sveitarfélögin um það hvernig mögulegt er að standa að framtíðaruppbyggingu skólahúsnæðis á Varmalandi. Má því segja að vinna við framtíðar skipulagningu sé hafin og er það vel viðeigandi á 50 ára afmæli skólans.
Vinna er nú hafin við að rita sögu barnafræðslu í Mýrasýslu fyrir síðustu 100 ár. Grunnskólinn á Varmalandi er 50 ára á þessu ári og árið 2008 verða 100 ár frá því að skóli var fyrst starfræktur í Borgarnesi. Sveitarfélögin Borgarbyggð og Hvítarsíðuhreppur standa að útgáfu sögunnar með myndarlegum stuðningi Sparisjóðs Mýrasýslu.
Nú á þessum tímamótum grunnskólans á Varmalandi er við hæfi að staldra við, líta um öxl, meta stöðuna í dag og horfa svo til framtíðar. Það er ekki hægt að segja annað en að afmælisbarnið sé í fullu fjöri og unglegra en nokkurn tímann ! Afmælisbarnið tekur á móti gestum á Varmalandi þann 21. maí frá kl. 14.00
Til hamingju með afmælið Varmalandsskóli.
 

Share: