Úthlutun úr styrktarsjóðnum Hornsteini

nóvember 5, 2007
Styrktarsjóðurinn Hornsteinn hjá Sparisjóði Mýrasýslu var stofnaður í upphafi árs 2007. Úthlutun úr sjóðnum fór fram fimmtudaginn 1. nóvember síðastliðinn á Hótel Hamri. Til úthlutunar voru að þessu sinni 49 milljónir króna. Fjörutíu og sex umsóknir bárust sjóðnum og var heildarupphæð þeirra styrkbeiðna yfir 150 milljónir króna. Af þeim 46 umsóknum sem bárust fengu 10 verkefni úthlutað styrkjum.
Það voru eftirtalin verkefni sem hlutu styrki.
Lýsingar á verkefnunum eru eins og þær birtast á vef Sparisjóðs Mýrasýslu.
 
1. UMSB. Ákveðið var að veita UMSB styrk að upphæð 1,0 milljón kr. til stofnunar íþróttaskóla fyrir börn í Borgarnesi, en skólinn hefur þegar hafið starfsemi. UMSB hefur leitað eftir samstarfi við Borgarbyggð um að íþróttaskólinn verði liður í starfi tómstundaskólans. Það er ætlun UMSB að halda áfram á sömu braut og ætlunin er síðar að fjölga slíkum skólum í Borgarbyggð.
2. Grunnskólar Borgarbyggðar. Skólarnir sóttu um styrk til kaupa á búnaði vegna margmiðlunarkennslu, en verkefnið felst í kaupum á tölvum, skjávörpum, ýmsum mælitækjum og hugbúnaði. Stjórn Hornsteinsins ákvað að veita þessu verkefni 1,0 milljón kr. Styrk.
3. Veiðifélag Borgarfjarðar. Sótt var um styrk til rannsókna á nýtingu og lífsháttum sjóbleikju á vatnasvæði Hvítá í Borgarfirði. Bleikju hefur fækkað mjög á vatnasvæðinu og er markmiðið leita skýringa á minnkun í stofnstærð. Veitt var 1,0 milljón kr. til verkefnisins.
4. Jónina Arnardóttir og Margrét Guðjónsdóttir. Sótt var styrk vegna IsNord tónlistarhátíðarinnar, sem hefur verið haldin undanfarin ár í Borgarfirði og hefur vakið mikla athygli. Veitt var 1,0 milljón kr. til verkefnisins.
5. Tónlistarskóli Borgarfjarðar. Skólinn sótti um styrk vegna uppsetningu á Sígaunabaróninum í tilefni 40 ára afmæli tónlistarskólans og 20 ára afmæli söngdeildar skólans. Ákveðið var að veita þessu metnaðarfulla verkefni 2.0 milljón kr. styrk.
6. Snorrastofa. Sótt var um styrk til verkefnisins Miðaldabærinn í Reykholti. Markmið er að taka saman í eitt heildarverk helstu niðurstöður uppgraftar á bæjarstæðinu í Reykholti, sem byggir á árlegum uppgraftarskýrslum 1987-1989 og 1997-2003. Samþykkt var að veita þessu verkefni 3.0 milljónir kr. styrk.
7. Landnámssetur Íslands ehf. Sótt var um styrk vegna greiðslu á stofnkostnaði við tækjabúnað er tengist sýningunni Landnám Íslands. Samþykkt var að veita þessu verkefni 5.0 milljónir kr. í styrk, en starfsemi Landnámssetursins er dæmi um frábært frumkvöðlastarf sem skilað hefur miklu inn í borgfirskt samfélag.
 
8. Fólkvangurinn í Einkunnum. Útivistarsvæðið í Einkunnum var gert að fólkvangi 2006 en svæðið er frábært til útivistar og býður upp á mikla fjölbreytni í gróðurfari, dýralífi og jarðmyndunum. Sótt var um styrk til úrbóta á aðkomu að Álatjörn, en ætlunin er að búa til bílastæði, stíg að Álatjörn sem fær yrði fötluðum og koma fyrir bryggju út í tjörnina. Verkefnið hlaut 5.0 milljónir kr. í styrk.
9. Reiðhöllin Vindási ehf. Sótt var um styrk vegna byggingar reiðhallarinnar að Vindási, sem er í eigu Hestamannafélaganna Skugga og Faxa, Hrossaræktarsambands Vesturlands auk Borgarbyggðar. Öflugt félagsstarf hestamanna hefur vakið mikla athygli og hefur jafnframt mikil margfeldisáhrif inn í borgfirskt samfélag. Stjórn Hornsteinsins ákvað að styðja þetta metnaðarfulla verkefni með 15.0 milljón kr., en kostnaður við bygginguna er áætlaður um 113 milljónir kr.
10. Golfklúbbur Borgarness. Golfklúbbur Borgarness var stofnaður 1973 og síðan hafa félagsmenn unnið frábært starf við að byggja upp eitt fallegasta svæði landsins til golfiðkunar og lauk uppbyggingu golfvallarins haustið 2006 er 18 holu golfvöllur var tekinn í notkun. Starfsemi klúbbsins hefur margvísleg margfeldisáhrif í för með sér og auðgar borgfirskt mannlíf. Golfklúbburinn sótti um stuðning vegna tækjakaupa, vallarframkvæmda og vegna undirbúnings að byggingu tækjageymslu. Stjórn Hornsteinsins ákvað að veita golfklúbbnum 15.0 milljónir kr. styrk vegna þessa verkefnis.

Share: