Úthlutun úr Minningarsjóði Guðmundar Böðvarssonar

ágúst 23, 2010
Ljóðaverðlaunum Guðmundar Böðvarssonar og Borgfirskum menningarverðlaunum verður úthlutað á samkomu í Snorrastofu í Reykholti sunnudaginn 5. september næstkomandi. Minningarsjóður Guðmundar Böðvarssonar skálds og bónda á Kirkjubóli og Ingibjargar Sigurðardóttur konu hans veitir verðlaunin. Sjóðurinn var stofnaður árið 1974 og var fyrsta verkefni hans að reka hús þeirra hjóna á Kirkjubóli sem bústað fyrir skáld og listafólk. Aðilar sjóðsins eru Rithöfundasamband Íslands, Ungmennasamband Borgarfjarðar, Samband borgfirskra kvenna, Búnaðarsamtök Vesturlands og afkomendur þeirra hjóna. Síðan 1994 hefur sjóðurinn veitt áðurnefnd verðlaun, sem eru annars vegar Ljóðaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar, sem veita skal íslensku ljóðskáldi og hins vegar menningarverðlaun sem veita skal Borgfirðingi, stofnun eða einstaklingi, fyrir sérstætt framlag til lista og menningarmála í héraði. Þetta er sjöunda úthlutun úr sjóðnum.
Samkoman hefst stundvíslega kl. 17.00 og er öllum opin.
Eftirtaldir aðilar hafa hingað til hlotið verðlaun sjóðsins:
Ljóðaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar:
 
1994 Hannes Sigfússon
1997 Þuríður Guðmundsdóttir
2000 Ingibjörg Haraldsdóttir
2004 Þorsteinn frá Hamri
2006 Þórarinn Eldjárn
2008 Hjörtur Pálsson
 
Borgfirsk menningarverðlaun:
 
1994 Fræðimennirnir Ari Gíslason og Bjarni Backmann
1997 Orgelkaupasjóður Reykholtskirkju
2000 Ungmennafélag Reykdæla og Ungmennafélagið Dagrenning
2004 Bragi Þórðarson bókaútgefandi
2006 Páll Guðmundsson myndlistarmaður
2008 Jóhanna Þorvaldsdóttir geitabóndi

Share: