
Hlutverk Húsaverndunarsjóðs er að veita styrk til endurgerða eða viðgerða á húsnæði eða öðrum sögulegum mannvirkjum á svæði Borgarbyggðar, sem sérstakt varðveislugildi hafa af listrænum eða menningarsögulegum ástæðum. Í samþykktum sjóðsins er sérstaklega kveðið á um að framkvæmdir séu í samræmi við upprunalegan byggingarstíl mannvirkis og í samræmi við sjónarmið minjavörslu. Sjóðurinn úthlutar árlega, að fenginni umsögn menningarnefndar um umsóknirnar.
Skemman er elsta uppistandandi bygging á Hvanneyri, byggð 1896. Árið 1993 var ráðist í að endurnýja húsið að utan með tilstyrk húsfriðunarnefndar um leið og gengið var frá vegghleðslum sem mynda umgjörð um húsið. Síðan þá hefur það staðið ófrágengið að innan og ekki verið í notum. Landbúnaðarháskóli Íslands, sem er eigandi Skemmunnar, lætur sóknarnefnd húsið í té með leigusamningi til langs tíma, með þeim skilyrðum að húsið myndi jafnframt nýtast til annarra félagsstarfsemi.
Meðfylgjandi mynd er vetrarmynd frá Hvanneyri, þar sem skemman sést til vinstri, hægra megin sést í leikfimihúsið sem byggt var 1911.
Ljósmynd: Guðrún Jónsdóttir