Heimir Pálsson, dósent við Uppsalaháskóla, flytur fyrirlestur í Snorrastofu í kvöld, þriðjudaginn 3. desember kL. 20.30 vegna útgáfu Snorrastofu og bókaútgáfunnar Opnu á bókinni Uppsala-Edda. Handritið DG 11 4to.
Edda er til í nokkrum handritum og er eitt þeirra varðveitt í Uppsölum, handritið DG 11 4to. Það handrit, sem eignar Snorra Sturlusyni Eddu, hefur Heimir Pálsson rannsakað um árabil og bókin geymir afraksturinn, ítarlegan inngang að verki Snorra þar sem Heimir kemur víða við, og texta Uppsala-Eddu í heild sinni með vönduðum skýringum.
Í formála Heimis segir: „Í flestöllum útgáfum Snorra-Eddu er stuðst við mörg handrit. Það er ekki gert hér nema í skýringum. Textinn er ekki leiðréttur nema örsjaldan og ætíð um það getið. Þetta hefur mikil áhrif á skýringar vísna, en hér er gengið út frá því að skrifari hafi að jafnaði haldið að hann skildi það sem hann færði til bókar. Hugmyndin er ekki að leita uppi upprunalegan texta Snorra Sturlusonar, hvað þá þeirra skálda sem hann vitnar til, heldur að skoða til hlítar þann texta sem ónafngreindur skrifari ritaði á bókfell um aldamótin 1300.“