Ungmennaþing á Vesturlandi

nóvember 29, 2018
Featured image for “Ungmennaþing á Vesturlandi”

Þann 2. – 3. nóvember 2018 fóru 10 ungmenni úr Borgarbyggð á Ungmennaþing Vesturlands sem haldið var á Laugum í Sælingsdal. Ungmennaþingið var það fyrsta sem haldið hefur verið á Vesturlandi en þar vorum saman komin 35 ungmenni úr öllum sveitafélögum vesturlands.

Það var þétt dagskrá báða dagana en við fengum bæði fyrirlestra og tókum þátt í allskonar umræðum. Við komum að Laugum um tvö á föstudeginum og fórum beint í hópeflisleiki. Dagskráin byrjaði svo á kynningu á sögu ungmennaráðs Akraness og Ungmennaráði Hólmavíkur. Eftir kaffitímann byrjuðu svo umræður um hver draumur okkar væri um allt sem okkur datt í hug og hvaða leiðir sem að við sæjum fyrir okkar til að hafa áhrif og koma okkar skoðunum á framfæri. Eftir kvöldmat var svo kvöldvaka þar sem að öll sveitarfélögin voru með eitt til tvö skemmtiatriði. Á laugardeginum horfðum við á myndbönd frá Ungmennaráði SASS og Eygló Rúnarsdóttir, sem vann lengi með Ungmennaráði Reykjavíkur kom með kynningu um tækifæri og styrkleika ungmennaráða. Eftir hádegi komu svo fulltrúar sveitarstjórna á Vesturlandi og tóku þátt í umræðum og að lokum ræddu ungmenni og sveitastjórnarfulltrúar úr sama sveitarfélaginum saman um það hvað væri næst á dagskrá.

Það er ljóst að við lærðum mikið af þessu ungmennaþingi og margt sem að við getum lært af öðrum ungmennaráðum og notað til að bæta og byggja upp betra starf ungmennaráðs Borgarbyggðar. Við áttum gott samtal við Lilju og Magnús sem komu frá sveitastjórn Borgarbyggðar og ákváðum að fyrsta skrefið væri að endurskoðað erindisbréf ungmennaráðsins og hefur sú vinna farið af stað.

Guðrún Karítas

F.h. Ungmennaráðs Borgarbyggðar


Share: