Ungmennaráð Borgarbyggðar fundar með sveitarstjórn

apríl 16, 2019
Featured image for “Ungmennaráð Borgarbyggðar fundar með sveitarstjórn”

Fulltrúar í ungmennaráði Borgarbyggðar, Elinóra Ýr, Elín Björk, Emma Sól, Kristján Bjarni og Elías Andri voru gestir sveitarstjórnarfundar þann 11. apríl sl. Bauð forseti sveitarstjórnar þau velkomin til fundar og komu þau á framfæri í ræðum sínum sjónarmiðum varðandi ýmsa þætti sem snerta málefni ungs fólks í sveitarfélaginu. Má þar helst nefna lengri opnun félagsmiðstöðvarinnar Óðal, lengri opnun um helgar í íþróttamiðstöðinni í Borgarnesi og opna tíma þar sem ungmenni geta komið og leikið sér í salnum. Ræddu þau um meiri fjölbreyttni í íþrótta- og tómstundastarfi svo að öll börn og ungmenni geti fundið sér eitthvað við sitt hæfi.

Lögðu fulltrúarnir áherslu á að betur þurfi að hlúa að þeim börnum og ungmennum sem búa í efri bæ, þau vilja fá tómstundabíl innan bæjar sem gæti hjálpað þeim að komast á æfingar og sinna öðrum tómstundum. Öll afþreying er í neðri bænum, íþróttahúsið, ærslabelgurinn, skólinn, félagsmiðstöðin og leiksvæðin.

Tillaga kom fram um að bæta samgöngur og bjóða upp á fleiri ferðir tómstundabílsins í uppsveitir Borgarbyggðar á virkum dögum og að bæta við ferðum á sumrin svo ungmenni geti mögulega sótt vinnu í Borgarnes. Eins þarf að huga betur að menntaskólanemum sem búa í uppsveitum og eru ekki komnir með bílpróf.

Staðfesti fundurinn nýtt erindisbréf Ungmennaráðsins, en hlutverk þess er að vera ráðgefandi um málefni er tengjast ungu fólki á aldrinum 14 til 25 ára í  sveitarfélaginu í umboði sveitarstjórnar. Ungmennaráð gerir tillögur til sveitarstjórnar um hvert það mál sem ráðið telur tengjast  hagsmunum og aðstæðum ungs fólks. Ráðið fylgist með því að stofnanir Borgarbyggðar vinni með hagsmuni ungs fólks að leiðarljósi. Ungmennaráð tekur til umfjöllunar þau mál sem sveitarstjórn og nefndir sveitarfélagsins óska  eftir hverju sinni og önnur þau mál sem ráðið telur nauðsynlegt að fjalla um í samræmi við  hlutverk og markmið ráðsins.


Share: