Unglingalandsmót UMFÍ haldið í Borgarnesi.

júlí 14, 2016
Featured image for “Unglingalandsmót UMFÍ haldið í Borgarnesi.”

Dagana 28. – 31. júlí n.k. verður Unglingalandsmót UMFÍ haldið í Borgarnesi. Það er ánægjuefni að Borgarnes skuli enn einu sinni vera vettvangur fyrir þessa glæsilegu fjölskylduhátíð. Reynsla undanfarinna ára hefur sýnt og sannað að mikill fjöldi keppenda, aðstandenda þeirra og annars áhugafólks mun sækja Borgarnes heim á meðan á unglingalandsmótinu stendur. Í þessu sambandi er það metnaðarmál okkar allra að geta tekið af myndarskap á móti gestum mótsins. Íþróttamannvirki sveitarfélagsins hafa verið lagfærð, snyrt og gerð þannig betur í stakk búin til að taka við miklum fjölda keppenda og svæði fyrir tjaldbúðir mótsins lagfært á Kárastaðatúnum. Miklu máli skiptir að keppendur og aðrir gestir snúi til síns heima með góðar minningar. Mikil vinna hefur verið innt af höndum af fjölda fólks við undirbúning mótsins. Síðan mun mikill fjöldi sjálfboðaliða annast framkvæmd mótsins sjálfs til að tryggja að það fari sem best fram og upplifun keppenda verði sem ánægjulegust. Ásýnd byggðarlagsins skiptir einnig máli varðandi varðandi yfirbragð mótsins og upplifun gesta okkar. Það væri því ánægjulegt ef íbúar Borgarness og fyrirtæki tækju höndum saman um að leggja sitt af mörkum í þessu skyni með að snyrta sitt nánasta umhverfi ef þörf er á. Nefna má í því sambandi að sópa gangstéttir og götur, hreinsa upp rusl og laga til þar sem þurfa þykir. Allt þetta skiptir máli varðandi þá upplifun og þær minningar sem okkar mörgu landsmótsgestir fara með til síns heima að móti loknu. Vitaskuld viljum við öll að þær verði sem bestar.

Með góðri unglingalandsmótskveðju
Gunnlaugur A. Júlíusson sveitarstjóri


Share: