Unglingalandsmótið hafið

júlí 30, 2010
Mikill fjöldi keppenda og gesta er nú kominn á Unglingalandsmót UMFÍ sem fram fer í Borgarnesi og nágrenni um verslunarmannahelgina. Veðrið hefur leikið við gesti og var um 20 stiga hiti og logn um hádegið í dag.
Umferð um svæðið er mikil og eru mótshaldarar í nánu samstarfi við björgunarsveitir og lögreglu. Lögð er rík áhersla á að gestir fari eftir fyrirmælum þeirra um umferð og lagningu bíla og annarra farartækja.
Mótið hófst í gær með keppni í körfuknattleik og í morgun hófst keppni í öðrum greinum s.s. golfi, knattspyrnu, sundi, frjálsum íþróttum og hestaíþróttum.
Í hádeginu í dag var afhjúpaður bautasteinn við íþróttavöllinn í tilefni mótsins.
Keppnin heldur síðan áfram í dag og margvísleg skemmtun verður fyrir alla aldurshópa.
Kl. 20,oo í kvöld verður formleg setningarathöfn á íþróttavellinum og síðan hefst kvöldvaka í risatjaldi sem búið er að setja upp við tjaldsvæðið.
Gífurlegur fjöldi sjálfboðaliða kemur að mótinu og hefur myndast mikil og góð stemming meðal íbúa sem margir hafa skreytt hús sín og götur í tilefni mótsins.
 

Share: