Fulltrúar fjarskiptasjóðs og 24 sveitarfélaga skrifuðu í gær undir samninga um styrki sjóðsins til sveitarfélaganna vegna ljósleiðaravæðingar þeirra í tengslum við landsátakið Ísland ljóstengt. Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, staðfesti einnig samningana með undirskrift sinni og fór athöfnin fram á skrifstofu Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Sveitarfélögin 24 fá samtals 450 milljónir króna í styrki, allt frá um 1,5 milljónum króna uppí nærri 63 milljónir. Auk styrkja frá fjarskiptasjóði þá leggja íbúar og sveitarfélög að lágmarki 350.000 kr. af mörkum vegna hverrar tengingar en í mörgum tilfellum er þörf á töluvert hærra framlagi heimamanna. Í þeim tilfellum að sveitarfélag ætlar ekki að eiga og reka eigið kerfi greiða fjarskiptafyrirtæki fyrir það að eignast slík kerfi eða reka fyrir hönd sveitarfélagsins.
Landsátakið í ljósleiðaravæðingu, Ísland ljóstengt, hófst vorið 2016 þegar fjarskiptasjóður bauð sveitarfélögum að sækja um styrk úr 450 milljóna króna potti til að leggja ljósleiðara í viðkomandi byggðarlag. Fjórtán sveitarfélög fengu styrk og lögðu sjálf fram viðbótarfjármagn eða fengu fjarskiptafyrirtæki í lið með sér. Alls náðu þau að tengja um eitt þúsund heimili og fyrirtæki í þessum áfanga.
Í ár var aftur boðinn fram 450 milljóna króna pottur og verður unnt að tengja um 1.400 nýja staði. Gera má ráð fyrir að þegar verkefnum ársins lýkur verði eftir kringum 1.600 ótengdir staðir. (af vef innanríkisráðuneytis)
Á myndinni er Gunnlaugur A Júlíusson sveitarstjóri að skrifa undir samning um 4,2 millj. kr. framlag Fjarskiptasjóðs til ljósleiðaraframkvæmda í Andakíl.