Undankeppni Stíls í Óðali

nóvember 6, 2012
Sigurvegarar kvöldsins
Undankeppni Stíls, hönnunarsamkeppni félagsmiðstöðvanna, fór fram í Félagsmiðstöðinni Óðal í Borgarnesi í síðustu viku. Stíll er keppni á milli félagsmiðstöðva þar sem keppt er í hárgreiðslu, förðun og fatahönnun út frá ákveðnu þema sem í ár er framtíðin. Hver félagsmiðstöð má senda eitt lið til keppninnar og í hverju liði mega vera 2-4 einstaklingar, þar af eitt módel. Þrír hópar tóku þátt í undankeppninni í Óðali, alls ellefu stelpur. Þátttakendur lögðu mikinn metnað í sinn undirbúning og var hönnun þeirra frumleg að sögn Rósu Hlínar Sigfúsdóttur kennara í textílmennt í Grunnskólanum í Borgarnesi en hún var þátttakendum innan handar í aðdraganda keppninnar. Undankeppnin gekk vel fyrir sig og stóðu allir sig frábærlega. Sigurvegarar kvöldsins voru þær Klara Ósk Kristinsdóttir, Guðbjörg Halldórsdóttir og Ester Alda Hrafnhildardóttir og verða þær fulltrúar Óðals í lokakeppni Stíls sem fer fram í Hörpu laugardaginn 24. nóvember.
Rósa segir að Félagsmiðstöðin Óðal og Grunnskólinn hafi aðstoðað krakkana í sameiningu við undirbúning. Þá nutu þau aðstoðar nokkurra aðila í Borgarnesi m.a. TK hárgreiðslustofu, Birnu Karenar Einarsdóttur förðunarfræðings og Evu Láru Vilhjálmsdóttur klæðskera. Sú leiðsögn hafi komið krökkunum vel og kvaðst Rósa afar þakklát fyrir þennan stuðning sem virki hvetjandi fyrir krakkana.

Share: