Umhverfisviðurkenningar Borgarbyggðar voru afhentar á Sauðamessu sem haldin var 5. október.
Viðurkenningarnar voru veittar í eftirfarandi flokkum:
Snyrtilegasta atvinnulóðin var valin Sólbakki 3 í Borgarnesi, þar sem bifreiðaverkstæðið Hvannnes er til húsa. Húsið og rekstur er í eigu bræðranna Gunnars og Sigurðar Arelíusar Emilssona.
Fallegasta íbúðarhúsalóðin var valin Fálkaklettur 9 í Borgarnesi. Hana eiga hjónin Anna Gerður Richter og Örn Jónsson. Í þá lóð hefur í grunninn verið lögð mikil vinna og metnaður til að gera hana fallega og vel úr garði.
Snyrtilegasta bændabýlið– Fyrir valinu varð Bóndhóll í fyrrum Borgarhreppi. Þar búa Þórhildur Þorgrímsdóttir og Kristbjörn Jónsson. Bærinn hefur yfirbragð hagleika og snyrtimennsku og hefur svo verið í áratugi. Bæjarmyndin sýnir fram á góða umhirðu og alúð. Trjágróður ásamt öðrum gróðri gleður augað og skapar hlýlegan blæ. Listilega gerðar rúllustæður gefa búsældarlega ásýnd og bera vott um blómlegt bú.
Sérstök Umhverfisverðlaun hlutu hjónin Anna Hallgrímsdóttir og Jóhannes Helgason á Hamri í Þverárhlíð. Hamar er einstaklega fallegt býli heim að líta. Öllu vel við haldið og snyrtilegt. Á Hamri er ekki hefðbundinn búskapur en stunduð skógrækt.
Myndina tók Ingibjörg Daníelsdóttir.