Miðvikudaginn 29. júní undirritaði Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra nýtt aðalskipulag Borgarbyggðar 2010 – 2022. Langþráð bið er á enda þar sem um er að ræða tímamóta stefnumörkun í landnýtingu enda fyrsta aðalskipulag sem nær yfir allt sveitarfélagið sem samansett er úr 13 sveitarfélögum og nær yfir 5% af Íslandi.
Í Borgarbyggð voru tvö svæðisskipulög í gildi og aðalskipulög fyrir Borgarnes, Hvítársíðu og Bifröst. Mikil vinna fólst í að samræma fyrrnefndar skipulagsáætlanir og á annað hundrað deilskipulög. Verkefnið hefur tekið 4 ár og var það ráðgjafafyrirtækið Landlínur í Borgarnesi sem vann verkið í samvinnu við starfsfólk sveitarfélagsins og fulltrúa í umhverfis- og skipulagsnefnd Borgarbyggðar.
Í aðalskipulaginu eru nokkur nýnmæli t.d. leggur sveitarfélagið áherslu á hefðbundinn landbúnað í Borgarbyggð með því að taka frá gott ræktunarland, einnig er lögð áhersla á náttúruvernd í aðalskipulaginu. Ýmis landnýting hefur verið kortlögð t.d. er búið að kortleggja um 830 km af göngu- og reiðleiðum í sveitarfélaginu. Vonast er til íbúar Borgarbyggðar kynni sér aðalskipulagið og nýti sér það til uppbyggingar og atvinnusköpunar, því tækifærin í Borgarbyggð eru mörg.
Nú ber að fagna stefnumörkun sveitarfélagsins sem nær til næstu tólf ára, aðalskipulagið á að vera lifandi plagg og eflaust verður þörf á endurskoðun þess áður en skipulagstímabilinu líkur.
Á myndinni eru Ragnar Frank Kristjánsson forseti sveitarstjórnar, Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra og Sigurbjörg Ósk Áskelsdóttir frá Landlínum.