Umhverfisátak í Borgarnesi

júlí 16, 2001

Bæjarstjórn Borgarbyggðar hefur samþykkt tillögu bæjarráðs um umhverfisátak í Borgarnesi síðla sumars. Borgarnes státar af einu fallegasta bæjarstæði landsins og markmiðið með átakinu er að stuðla að enn fallegri ásýnd bæjarins. Með átakinu er einkum verið að höfða til fyrirtækja og stofnana í Borgarnesi um að þau gefi sér tíma til að fegra og bæta umhverfi sitt.

Aðgerðaráætlun verkefnisins gerir m.a. ráð fyrir eftirfarandi þáttum:
· Átakið fari fram 20. ágúst til 1. september
· Fyrirtækjum og stofnunum verði boðið upp á að fá járnagáma og timburgáma undir það sem á að henda
· Leitað verður tilboða í málningu átaksdagana
· Garðyrkjufræðingur gefur góð ráð varðandi gróðursetningu trjáa ofl.
· Bæjarfulltrúar fara í vinnugallana og taka til laugardaginn 25. ágúst
· Viðurkenningar fyrir góða frammistöðu í átakinu

Leitað er til frjálsra félagasamtaka og klúbba í Borgarbyggð um að tilnefna sinn fulltrúa í umsjónarnefnd. Nefndin fylgist með framgangi verkefnisins, leggur til hugmyndir og velur þá aðila sem veitt verða viðurkenningar fyrir góða frammistöðu. Forsvarsmenn félagasamtaka og klúbba eru beðnir um að taka þetta til sín og tilnefna einn sjálfboðaliða í umsjónarnefnd. Tilnefningar berist bæjarstjóra fyrir 15. ágúst.
Fyrirtæki og stofnanir eru hvött til að nýta sér þetta tækifæri til tiltekta og fegrunar á lóðum og byggingum sínum. Íbúar eru hvattir til að koma ábendingum á framfæri.
Ragnhildur Sigurðardóttir verkefnisstjóri “Fegurri sveita” verður Borgarbyggð til ráðgjafar í þessu verkefni.


Share: