Fréttabréf Borgarbyggðar 2001

ágúst 29, 2001

Í ágúst var gefið út fréttabréf sem dreift var til allra íbúa Borgarbyggðar.
Texti þess fer hér á eftir.

Grunnskólinn í Borgarnesi
– nýbygging – einsetning

Komið er að töluvert miklum tímamótum í starfsemi Grunnskólans í Borgarnesi. Nú í ágúst verður tekin í notkun 660 m² viðbygging við skólann með sex nýjum kennslustofum. Samhliða verður skólinn einsetinn.
Framkvæmdir við hina nýju skólabyggingu hófust um s.l. áramót. Byggingarfyrirtækið Sólfell sá um framkvæmdir en að því komu ýmsir undirverktakar m.a. Loftorka sem reisti bygginguna. Sérstök byggingarnefnd hafði veg og vanda að undirbúningi af hálfu Borgarbyggðar og er ástæða til að óska nefndinni til hamingju með afraksturinn.
Verktaki afhendir Borgarbyggð skólahúsnæðið á næstu dögum. Við skólasetningu þann 23. ágúst verður húsnæðið síðan formlega afhent grunnskólanum. Milli kl. 15:00 og 17:00 þann dag verður húsnæðið til sýnis fyrir alla þá sem áhuga hafa.

– einsetning – tómstundaskóli

Með einsetningu verða töluverðar breytingar á innra starfi skólans. Í fréttabréfi grunnskólans til foreldra verður gerð ítarlegri grein fyrir þeim en stærsta breytingin er sú að allir nemendur mæta í skólann á nokkurn vegin sama tíma upp úr kl. 08:00 og hafa almennt lokið námi um kl. 14:00. Skólaskjól verður rekið að skóla loknum fyrir þau börn sem þurfa á gæslu að halda. Í undirbúningi er að hefja starfsemi tómstundaskólans sem er ætlaður fyrir 6 – 9 ára börn. Á vegum hans verður boðið upp á ýmis námskeið og afþreyingu á milli kl. 14:00 og 16:00. Gjald verður tekið fyrir þátttöku á þessum námskeiðum og því haldið í hóf eins og kostur er.
Áhugi er á að koma á hreyfinámskeiðum fyrir 3 – 5 ára börn á laugardögum og er það í skoðun. Skoðað verður hvernig starfsemi tómstundaskólans geti jafnframt náð til nemenda við Grunnskólann á Varmalandi en of snemmt að segja hvernig því verði hagað.
Lögð er áhersla á að flétta það íþrótta- og tómstundastarf sem fyrir er inn í stundatöflu tómstundaskólans þannig að yngstu börnin geti nýtt tímann eftir að skóla líkur og verið sem mest búin í öðru starfi um kl. 17:00 á daginn. Starfsemi og skipulag tómstundaskólans er nú í fullum undirbúningi og verður kynntur frekar fyrir foreldrum viðkomandi barna. Áformað er að fyrstu námskeiðin hefjist mánudaginn 10. september.

Umhverfisátak í Borgarnesi

Borgarbyggð stendur fyrir umhverfisátaki í Borgarnesi í seinni hluta ágúst mánaðar. Með átakinu er einkum verið að höfða til fyrirtækja og stofnana í Borgarnesi um að þau gefi sér tíma til að fegra og bæta umhverfi sitt. Aðgerðaráætlun verkefnisins gerir m.a. ráð fyrir eftirfarandi þáttum:
· að átakið fari fram 20. ágúst til 1. september
· að fyrirtækjum og stofnunum sé boðið upp á að fá járnagáma og timburgáma
· að leitað verði tilboða í málningu átaksdagana
· að garðyrkjufræðingur gefi góð ráð varðandi gróðursetningu trjáa ofl.
· að bæjarfulltrúar fari í vinnugallana og taki til laugardaginn 25. ágúst
· að veita viðurkenningar fyrir góða frammistöðu í átakinu
Bæjarfulltrúar munu taka til hendinni undir stjórn verkstjóra. Umsjónarnefnd sem skipuð er sjálfboðaliðum úr félagasamtökum fylgist með framgangi átaksins og veitir viðurkenningar. Skorað er á fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga að nýta sér þetta tækifæri til tiltekta og fegrunar á lóðum og byggingum sínum. Þeir sem vilja nýta sér tilboð um gáma eða annað sem Borgarbyggð býður upp á hafi samband við skrifstofuna s. 437-1224.

&quotFegurri sveitir”

Nú er að ljúka átaki í söfnun á brotajárni í dreifbýlinu. Verkefnið er liður í þátttöku Borgarbyggðar í verkefninu &quotFegurri sveitir”.
Ragnhildur Sigurðardóttir á Álftavatni er verkefnisstjóri &quotFegurri sveita”. Eins og áður hefur komið fram ætlar Ragnhildur að heimsækja Borgarbyggð nú síðla sumars. Hún mun fara um og hitta bændur og búalið, fara yfir verkefnið og svara spurningum. Ekki er hægt að hafa þessar heimsóknir fyrirfram skipulagðar, þ.e. koma verður í ljós hvort menn verða heima þegar hún verður á ferðinni. Hægt er að afþakka heimsókn Ragnhildar og eru viðkomandi þá beðnir um að gera það með því að hafa samband við þjónustufulltrúa eða við skrifstofu Borgarbyggðar.

Jarðgerðarkassar

Fyrir rúmlega ári síðan auglýsti Borgarbyggð eftir heimilum sem vildu hefja heimajarðgerð. Með heimajarðgerð er átt við flokkun á lífrænum úrgangi sem settur er í sérstaka jarðgerðarkassa sem menn geyma í garðinum hjá sér. Niðurstaðan í fyrra varð að um 25 heimili vildu vera með í slíku verkefni. Borgarbyggð hafði milligöngu um að útvega jarðgerðarkassa sem menn fengu á afar hagstæðu verði. Nú er auglýst eftir fleiri heimilum sem vilja taka þátt í næsta áfanga að þessu verkefni. Ef áhugi reynist
vera fyrir hendi verður stefnt að því að endurtaka leikinn m.v. að tíu til tuttugu heimili bjóði sig fram. Þeir sem áhuga hafa á þátttöku tilkynni hana á skrifstofu Borgarbyggðar fyrir 10. september n.k.

Akstursstyrkir vegna íþróttaæfinga

Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum 9. ágúst tillögu að úthlutunarreglum vegna aksturs barna og unglinga úr dreifbýli á skipulagðar íþróttaæfingar á vegum félagasamtaka í Borgarbyggð. Markmiðið með þessum reglum er að stuðla að jöfnun aðstöðumunar barna og unglinga í dreifbýli til íþróttaiðkunar. Miðað er við aldurinn 6-16 ára og eru gerðar kröfur um ástundun og heimilisfesti í sveitarfélaginu. Reglur þessar taka gildi um næstu áramót og gilda til reynslu fyrir árið 2002. Reglur þessar verða kynntar nánar síðar en þeir sem vildu afla sér frekari upplýsinga er bent á að hafa samband við íþrótta- og æskulýðsfulltrúa.

Forstöðumaður fræðslu- og menningarsviðs

Um miðjan ágúst tekur til starfa nýr forstöðumaður hjá Borgarbyggð. Þetta er Ásthildur Magnúsdóttir sem hefur verið ráðin forstöðumaður fræðslu- og menningarsviðs sem er ný staða hjá sveitarfélaginu.
Ásthildur lauk prófi í rekstrarfræðum frá Viðskiptaháskólanum á Bifröst í vor og er með kennarapróf frá Kennaraháskóla Íslands. Forstöðumaður heldur utan um málaflokkana fræðslumál, æskulýðs- og íþróttamál og menningarmál hjá Borgarbyggð en yfirmenn einstakra stofnana bera eftir sem áður ábyrgð á sinni starfsemi. Hér er um viðmikla málaflokka að ræða og meirihlutann af rekstrarútgjöldum sveitarfélagsins. Það verður því að mörgu að hyggja í þessu nýja starfi.

Starfsmaður við meindýraeyðingu og hundaeftirlit.

Erlendur Samúelsson hefur tekið að sér eyðingu meindýra í Borgarbyggð. Hægt er að hafa samband við Erlend í síma 437-1938 eða 852-9332 ef fjarlægja þarf geitungabú eða eyða meindýrum. Erlendur hefur einnig tekið að sér hundaeftirlit í Borgarnesi


Share: