Umf Skallagrímur 100 ára

nóvember 29, 2016
Featured image for “Umf Skallagrímur 100 ára”

Skallagrímur 100 ára

Ungmennafélagið Skallagrímur í Borgarnesi fagnar 100 ára afmæli á þessu ári.  Félagið var formlega stofnað 3 desember 1916.  Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá stofnun félagsins og starfsemi þess tekið breytingum í áranna rás.  Í dag eru fimm deildir starfandi innan félagsins: sunddeild, knattspyrnudeild, körfuknattleiksdeild, badmintondeild og leikdeild.  Lengi vel var einnig starfandi frjálsíþróttadeild en hún er í dag hluti af Frjálsíþróttafélagi Borgarfjarðar.

Iðkendur innan Skallagríms eru á fjórða hundrað og flestir leggja stund á fótbolta og körfubolta.  Skallagrímur hefur undanfarin ár verið meðal fremstu liða á landinu í körfubolta og á í dag lið í efstu deild karla og kvenna.  Í gegnum árin hafa landsliðsmenn í ýmsum íþróttagreinum komið úr röðum Skallagríms og svo er enn í dag.  Þrátt fyrir að íþróttastarf sé orðið aðalsmerki ungmennafélaga eins og Skallagríms þá er leiklistarstarf ennþá í miklu blóma og hefur leikdeild félagsins árlega sett upp ýmsar sýningar sem margar hverjar hafa vakið mikla athygli.

Deildir Skallagríms hafa með ýmsum hætti minnst aldarafmælisins.  Síðastliðið vor gaf knattspyrnudeildin út blað sem tileinkað var afmælinu þar sem saga fótboltans í Borgarnesi var rifjuð upp.  Körfuknattleiksdeildin gaf einnig út veglegt afmælisblað á haustmánuðum og leikdeildin hefur staðið fyrir ýmsum viðburðum til að minnast afmælisins.

Laugardaginn 3 desember n.k. verður íbúum Borgarbyggðar boðið í afmæliskaffi og dýrindis köku frá Geirabakarí í Hjálmakletti þar sem þessara tímamóta í sögu Skallagríms verður fagnað.  Þar verða rifjaðir upp ýmsir eftirminnilegir þættir úr sögu félagsins og leikdeild Skallagríms slær á létta strengi.  Dagskrá hefst kl.14.00.  Íbúar eru hvattir til að mæta  og fagna aldarafmæli Skallagríms.

Að afmæliskaffinu loknu, kl. 16:30, hefst stórleikur í körfubolta kvenna þar sem Skallagrímur og Keflavík eigast við og um kvöldið, kl. 20:30, verður leikdeild Skallagríms með hátíðarsýningu á afmælissýningu sinni í Lyngbrekku.


Share: