Umferðaröryggismál

febrúar 8, 2007
Vinnuhópur um umferðaröryggismál í Borgarbyggð hefur skilað tillögum til byggðaráðs Borgarbyggðar sem samþykkti þær á fundi þ. 17. janúar s.l.
 
Framkvæmdasviði hefur verið falið að hrinda málunum í framkvæmd. Vinnuhópurinn lagði til eftirfarandi aðgerðir:
a) Að leyfilegur hámarkshraði innan þéttbýlismarka sveitarfélagsins verði lækkaður í 35 km/klst að undanskildum hluta af aðalgötunni í Borgarnesi, þar sem leyfilegur hámarkshraði verði áfram 50 km/klst.
 
b)Að umferðarmerkingar við skóla- og íþróttamannvirki í Borgarnesi og sérstaklega við Grunnskólann, verði stórbættar.
 
c) Að ,,hægri réttur” verði afnuminn á Hvanneyri en þess í stað verði komið á biðskyldu.
 
d)Að stórbætt verði götulýsing á Hvanneyri.
Í áliti hópsins er ennfremur bein tillaga til Vegagerðarinnar um að leyfilegur hámarkshraði við aðkomu að Digranesgötu við þjóðveg nr. 1 í Borgarnesi verði lækkaður niður í 50 km/klst.
Ennfremur var formanni vinnuhópsins og starfsmanni hans falið að rita Vegagerð ríkisins bréf m.a. vegna eftirtalinna atriða:
Bifröst – Umferðarhraði og umferðaröryggi þjóðvegarins. Vegtenging Bifrastar við þjóðveginn. Öryggi gangandi vegfarenda við gatnamótin og umræður um hugsanleg undirgöng eða aðra lausn fyrir gangandi vegfarendur yfir þjóðveg 1.Götulýsing sbr. sú lýsing sem gerð var við Baulu.
 
Reykholt – Lýsing frá versluninni Bitanum og fram hjá afleggjara að hverfi.
 
Kleppjárnsreykir – Lýsing við hvorn enda hverfisins (eyjur).
 
Hvanneyri – Götulýsing.
 
Borgarnes – Viðræður um staðsetningu upphækkaðra gangbrauta á Borgarbraut. Hópurinn leggur til að ein slík gangbraut verði staðsett á móts við Dvalarheimilið, við gatnamót Borgarbrautar og Böðvarsgötu/Þorsteinsgötu og á móts við tónlistarskólann. Einnig þarf að ræða um möguleika á upplýstu eða blikkandi gangbrautarmerki við þessar gangbrautir.
Í vinnuhópi Borgarbyggðar um umferðaröryggismál eru eftirtalin: Bjarki Þorsteinsson formaður, Sigríður Bjarnadóttir, Jóhannes Stefánsson, Theodór Þórðarson f.h. lögreglunnar og Jökull Helgason starfsmaður framkvæmdasviðs.

Share: