Umferðaröryggi á Borgarbraut

mars 6, 2019
Featured image for “Umferðaröryggi á Borgarbraut”

Lögreglan hefur um langt skeið haft áhyggjur af of miklum umferðarhraða á Borgarbrautinni í Borgarnesi. Í því sambandi hefur hún helst bent á kaflann frá Böðvarsgötu niður að Egilsgötu. Á skólatíma er til að mynda mikil umferð gangandi vegfarenda á þessum slóðum. Sökum þess er til að mynda höfð sérstök gangbrautarvarsla við tónlistarskólann á morgnana til að tryggja öryggi skólabarna.  Lögreglan hefur einnig bent á í þessu sambandi að víða er gengið beint úr íbúðarhúsnæði út á gangstétt við götuna á þessu svæði. Það skapar einnig ákveðna hættu í umferðinni. Til að auka umferðaröryggi við Borgarbrautina hefur lögreglan ítrekað lagt til hámarkshraði verði lækkaður niður í 30 km hraða á fyrrgreindum kafla. Þeim áherslum var síðast komið á framfæri við sveitarfélagið á fundi lögreglustjórans á Vesturlandi með byggðarráði Borgarbyggðar á sameiginlegum fundi þann 24. Janúar sl. Það þótti því rétt að bregðast við síendurteknum ábendingum lögreglunnar í þessu efni. Ákveðið var að umferðarhraði skyldi lækkaður niður í 30 km hraða á Borgarbraut niður að Egilsgötu  í þeim tilgangi að tryggja enn betur umferðaröryggi gangandi vegfarenda. Á fyrrgreindum fundi byggðarráðs var einnig ákveðið að stofna starfshóp lögreglunnar, vegagerðarinnar og Borgarbyggðar um bætt umferðaröryggi innan sveitarfélagsins og aðgerðir í þeim efnum. Starfshópurinn tekur til starfa á næstu vikum.


Share: