Trausti kjörinn íþróttamaður Borgarbyggðar 2009

febrúar 16, 2010

Trausti Eiríksson mynd_Skessuhorn/SL

Síðastliðinn föstudag var tilkynnt um val á íþróttamanni Borgarbyggðar við hátíðlega athöfn í íþróttamiðstöðinni í Borgarnesi. Það er Tómstunda- og menningarnefnd Borgarbyggðar sem útnefnir íþróttamann Borgarbyggðar úr tilnefningum frá félögum og deildum í Borgarbyggð.
Trausti Eiríksson körfuboltamaður í Skallagrími var kjörinn íþróttamaður Borgarbyggðar árið 2009. Trausti varð Norðurlandameistari U18 í körfuknattleik í Svíþjóð á síðasta ári með félögum sínum og er ákaflega efnilegur körfuboltamaður.
Viðurkenningu úr Minningarsjóði Auðuns Hlíðkvists Kristmarssonar hlaut sundmaðurinn Jón Ingi Sigurðsson, einnig úr Skallagrími.
Tómstunda- og menningarnefnd ákvað að heiðra við þetta tilefni Þorvald Jónsson frá Brekkukoti fyrir óeigingjarnt starf í þágu íþrótta-, æskulýðs- og menningarmála um langt árabil í héraðinu. Sonur hans Helgi Eyleifur tók við viðurkenningunni fyrir hans hönd. Þá afhenti Guðmundur Ebeneser Guðjónsson formaður Umf. Skallagríms Pálma Blængssyni formanni körfuknattleiksdeildar viðurkenningu fyrir starf deildarinnar á síðasta ári og ennfremur veitti hann Konráð Konráðssyni viðurkenningu fyrir störf í þágu félagsins á liðnum árum.
 
Eftirfarandi voru tilnefndir:
Þeir sem voru tilnefndir í kjör Íþróttamanns Borgarbyggðar að þessu sinni voru: Konráð Axel Gylfason Faxa fyrir hestamennsku, Sigmar Aron Ómarsson Umf. Íslendingi og Helgi Guðjónsson Umf. Reykdæla fyrir frjálsar íþróttir. Tómstunda- og menningarnefnd valdi Sigmar Aron Ómarsson frjálsíþróttamann ársins. Anna Sigríður Hauksdóttir Umf Íslendingi var tilnefnd blakmaður ársins. Trausti Eiríksson Skallagrími og Karvel Karvelsson Umf. Reykdæla fyrir körfubolta og valdi nefndin Trausta sem körfuknattleiksmann ársins. Arnór Tumi Finnsson Umf. Skallagrími er badmintonmaður ársins, Bjarki Pétursson golfkl. Borgarness er golfari ársins. Í knattspyrnu voru tilnefndir Dawid Mikolaj Dabrowski Umf. Skallagrími og Anton Freyr Arnarsson Umf. Íslendingi og valdi nefndin Dawid Mikolaj sem knattspyrnumann ársins. Fyrir sund voru tilnefndir Jón Ingi Sigurðsson Umf. Skallagrími og Helgi Guðjónsson Umf. Reykdæla og valdi nefndin Jón Inga sem sundmann ársins. Athygli vekur þó að Helgi var auk sundsins tilnefndur fyrir frjálsar íþróttir og sýnir það hversu fjölhæfur íþróttamaður hann er þótt ungur sé að árum.
 
Þá voru landsliðsfólki úr Borgarbyggð, þ.e. þau sem valin voru í landslið Íslands á síðasta ári, einnig veittar viðurkenningar. Þau voru: Bjarki Pétursson – Unglingalandslið U15 í golfi, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir – A- landslið kvenna í körfuknattleik, Tinna Kristín Finnbogadóttir – Unglingalandsliðssæti í skák, Hulda Rún Finnbogadóttir. – Unglingalandsliðssæti í skák, Trausti Eiríksson – Unglingalandslið í U18 í körfuknattleik, Sigurður Þórarinsson – Unglingalandslið í U18 í körfuknattleik og Sigmar Aron Ómarsson – Afrekshóp Danssambands Íslands en hópurinn er í raun landslið dansara.
 

Share: