Tónlistarskóli Borgarfjarðar í eigið húsnæði

mars 4, 2004
Viðar Guðmundsson kennari og Ásta Þorsteinsdóttir nemandi.
Nýtt húsnæði Tónlistarskóla Borgarfjarðar var formlega tekið í notkun síðastliðinn laugardag að viðstöddu fjölmenni. Þar með er skólinn kominn í igið húsnæði í fyrsta sinn frá stofnun hans fyrir 36 árum en kennsla hefur hingað til farið fram í grunnskólum héraðsins og í leiguhúsnæði á nokkrum
stöðum í Borgarfirði eða á heimilum tónlistarkennara.
Nýja Tónlistarskólahúsið er að Borgarbraut 23 þar sem Borgarness Apótek var lengst af til húsa og þar eru sjö kennslustofur, tónleikasalur og aðstaða fyrir nemendur og kennara.
Um tvöhundruð og fimmtíu nemendur stunda nám við Tónlistarskóla Borgarfjarðar og segir Theodóra Þorsteinsdóttir skólastjóri að hin nýja aðstaða sé bylting, bæði fyrir þá og starfsfólkið. „Þetta er stór stund fyrir okkur sem stöndum að Tónlistarskóla Borgarfjarðar og ég er ekki í vafa um að þetta mun efla starfsemi skólans og tónlistarlíf í héraðinu enn frekar,“ segir Theodóra.

Eva Eðvarsdóttir formaður Menningarsjóðs Sparisjóðs Mýrasýslu afhendir Theodóru Þorsteinsdóttur skólastjóra Tónlistarskóla Borgarfjarðar nýja flygilinn.

Nýir flyglar
Við vígsluathöfnina á laugardag blessaði sr. Þorbjörn Hlynur Árnason húsið, nemendur og kennarar skólans fluttu tónlistaratriði og saga skólans var rifjuð upp. Sveitarfélögin sem standa að skólanum, Skorradalshreppur, Borgarfjarðarsveit, Hvítársíða og Borgarbyggð, færðu skólanum peningagjöf og
við athöfnina var formlega tekinn í notkun nýr flygill sem er gjöf frá Menningarsjóði Sparisjóðs Mýrasýslu en sjóðurinn færði skólanum einnig að gjöf notaðan flygil sem þegar hafði verið afhentur.
Þrátt fyrir að húsnæðið hafi verið sniðið að þörfum Tónlistarskólans er það enn vanbúið húsgögnum og fram kom við vígsluna á laugardag að nýstofnuð Hollvinasamtök Tónlistarskóla Borgarfjarðar hafa hrundið að stað söfnun til að kaupa stóla í tónleikasalinn á neðri hæðinni.


Share: