Tónleikar í Landnámssetri

september 17, 2009
Í kvöld fimmtudaginn 17. september flytja Kristjana Arngrímsdóttir, söngkona, og Kristján Hjartarson gítarleikari ljúfa tónlist í Landnámssetri. Tónleikarnir hefjast kl. 20.00.
Þau hjónin Kristjana Arngrímsdóttir og Kristján Hjartarson hafa um langan tíma tekið þátt í tónlistarlífi í sinni heimabyggð, Svarfaðardal og Dalvík. Kristján tileinkaði sér snemma vísnasöng að skandinavískri fyrirmynd og kom fram sem trúbador víða um land. Kristjana fór snemma að syngja í kórum og tók þátt í starfi Leikfélags Dalvíkur og þar lágu leiðir þeirra Kristjáns saman í fleiri en einum skilningi því þar hófst þeirra samleikur og tónlistarlega samstarf í alvöru.
Seinna stofnuðu þau Tjarnarkvartettinn ásamt þeim Hjörleifi Hjartarsyni og Rósu Kristínu Baldursdóttur. Tjarnarkvartettinn starfaði óslitið í á annan áratug, og söng víða um land og einnig utan landsteinana. Tjarnarkvartettin var a capellakvartett og gaf út á ferli sínum fjóra geisladiska. Kristjana gaf út sinn fyrsta sólódisk, “Þvílík er ástin”, árið 2000 og það sama ár fluttu þau hjón til Danmerkur með fjölskyldu sína og bjuggu þar í fimm ár. Á þeim tíma ferðuðust þau vítt um Danaveldi og víðar og fluttu tónlist sína við ólík tækifæri. Eftir heimkomuna til Íslands 2005 gaf Kristjana út annan sólódisk, “Í húminu”, þar sem hún flytur íslensk og dönsk vísnalög, þjóðlög og sálma.
Nú koma þau hingað og syngja á haustvöku og flytja lög og texta úr ýmsum áttum frá ýmsum tímum, en allir eiga söngvarnir það sameiginlegt að segja sögur, allt frá hástefndum ástar- og örlagasögum yfir í kaldhæðnislega þjóðfélagsádeilu og samfélagsrýni og lögin flétta þau saman með spjalli um allt og ekki neitt.

Share: