Öll börn í elstu árgöngum leikskólanna í Borgarbyggð fengu síðastliðinn mánudag, með samhentu átaki allra leikskólanna tækifæri til að sjá og taka þátt í draumkenndu sýningunni Bárur. Sýningin er hluti af Óperudögum 2022.
Fyrri sýning fór fram í hlýlegum sal á Hnoðrabóli á Kleppjárnsreykjum og þangað komu börn frá Andabæ og Hraunborg. Seinni sýningin var haldin í nýuppgerðu Óðali í Borgarnesi og þangað komu börn frá Klettaborg og Uglukletti. Börnin stóðu sig með mikilli prýði, opin og glöð og þátttökufús.
Niður sjávar og vatns er aðalþema þessa verks, en norræn goðafræði svífur einnig yfir vötnum. Sagan var sögð af tónskáldinu, Svöfu Þórhallsdóttur, sem söng og stýrði þátttöku barnanna. Hún leiddi börnin í ævintýraheim og notaði viðburði í sögunni til að skapa aðstæður þar sem börnin fengu að taka þátt. Með Svöfu komu fram Eyjólfur Eyjólfsson sem lék á langspil, Julie Holmegaard Schade sem lék á harmonikku og Julius Ditlevsen flautuleikari.
Ekki var annað að heyra en að áheyrendurnir ungu væru ánægð með sýninguna.