Tilkynning frá Orkuveitunni

júní 20, 2012
Umfangsmikið rafmagnsleysi á Vesturlandi aðfararnótt föstudagsins 22. júní mun valda truflunum í veitukerfum Orkuveitu Reykjavíkur á svæðinu. Starfsfólk Orkuveitunnar verður með aukinn viðbúnað vegna þessa.
Landsnet þarf að sinna viðhaldi í tengivirkinu við Vatnshamra í Borgarfirði aðfararnótt föstudagsins, frá miðnætti til kl. sex á föstudagsmorgun. RARIK, sem sér um rafmagnsdreifingu á Vesturlandi, hefur tilkynnt að rafmagnslaust verði norðan Skarðheiðar, það er í Borgarfirði, Mýrasýslu og á Snæfellsnesi og þar með talið á öllum þéttbýlisstöðum, svo sem í Borgarnesi, á Bifröst, á Hvanneyri, í Grundarfirði, í Stykkishólmi, í Ólafsvík, á Hellissandi, á Rifi og á Arnarstapa.
Rafmagnsleysið mun valda truflunum í rekstri veitukerfa Orkuveitunnar á þessu svæði. Með fyrirbyggjandi aðgerðum starfsfólks er unnið að því að áhrif rafmagnsleysisins verði sem minnst.
Einkum er hætt við að truflun verði í rekstri vatnsveitu Borgfirðinga frá Grábrókarhrauni. Sjálfrennsli er í vatnsveitunni í Stykkishólmi og frá vatnsgeymi í Grundarfirði. Varaafl er fyrir hitaveituna frá Deildartunguhver. Í Skorradal má búast við truflun á rekstri hitaveitu. Starfsemi Orkuveitunnar á Akranesi verður með eðlilegum hætti en straumleysið nær ekki þangað.

Viðvörun!

Íbúar þar sem búast má við að kaldavatnsþrýstingur verði lægri en venjulega en ekki heitavatnslaust eru sérstaklega varaðir við að slysahætta getur skapast af því að heitara vatn komi úr krönum en venja er til, jafnvel úr hitastýrðum blöndunartækjum. Þetta á sérstaklega við íbúa Borgarness og Borgarfjarðar

Share: