Tilfærsla þjóðvegarins – hvar er málið statt?

febrúar 4, 2023
Featured image for “Tilfærsla þjóðvegarins – hvar er málið statt?”

Síðustu daga og vikur hefur farið fram umræða um staðsetningu þjóðvegarins við Borgarnes. Sú umræða hefur verið á vettvangi sveitarstjórnar Borgarbyggðar, meðal íbúa sveitarfélagsins og fleiri landsmanna. Umræðan snýr að breytingu á aðalskipulagi Borgarbyggðar og er tilkomin vegna þess markmiðs sveitarfélagsins að stækka íbúabyggð í Bjargslandi. Gert er ráð fyrir gatnagerð nýrrar íbúagötu um Kveldúlfshöfða og á sú vinna að hefjast á þessu ári og fer einnig fram á því næsta. Í gildandi aðalskipulagi er gert ráð fyrir að þjóðvegurinn um Borgarnes liggi nánast þvert í gegnum fyrirhugaða íbúabyggð (sjá tillögu 3). Til þess að hægt sé að skipuleggja umrædda íbúabyggð á þessu svæði þarf að samþykkja breytingu á fyrirhugaðri legu þjóðvegarins.

Sveitarstjórn hefur rætt mögulegar sviðsmyndir, þá helst tillögu fimm eða blöndu af leið þrjú og fimm. Í öllum tilvikum er miðað við að vegurinn færist fjær standlengjunni en miðað er við í gilandi skipulagi. Ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um staðsetningu þjóðvegar og mun það ekki gerast í bráð. Vegagerðin á eftir að framkvæma umhverfismat, kostnaðarmat og aðrar nauðsynlegar rannsóknir áður en lengra er haldið. Borgarbyggð vinnur náið með Vegagerðinni í þessu verkefni og tekur undir það sjónarmið að stemma þurfi stigu við vaxandi umferð í gegnum byggðina með tilheyrandi slysahættu. Það má einnig gera ráð fyrir því að gerð verði krafa um 2-1 veg í gegnum Borgarnes í framtíðinni ef vegurinn verður ekki færður. Ljóst er að slík framkvæmd myndi þurfa töluvert meira rými en vegurinn eins og hann liggur í dag og því nauðsynlegt að huga vel að tilfærslu þjóðvegarins með það í huga.

Tímalína verkefnisins er löng og ströng og er áætlað að þessi vinna taki um áratug í heildina og því enn mikil vinna framundan áður en endanleg veglína er ákveðin.

En hvað gerist næst?

Skipulags- og byggingarnefnd tók lýsingu að aðalskipulagsbreytingu á fundi í gær. Þar var eftirfarandi samþykkt: “Skipulags- og byggingarnefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkja framlagða lýsingu til auglýsingar fyrir Breytingu á þjóðvegi 1 um Borgarnes og nýtt íbúðarsvæði skv. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Horft verður á tvo meginvalkosti, leið 5 einvörðungu og blöndu af leiðum 3 og 5.“

Verði lýsingin í framhaldinu samþykkt til auglýsingar af sveitarstjórn fer lýsingin í almenna auglýsingu í þrjár vikur. Auglýst verður á heimasíðu  Borgarbyggðar og í fjölmiðlum. Í auglýsingunni verður óskað eftir umsögnum frá nærliggjandi sveitarfélögum og lögbundnum umsagnaraðilum. Auk þess geta almenningur og aðrir hagsmunaaðilar komið með ábendingar um lýsinguna.

Eftir að öllum umsögnum og ábendingum hefur verið safnað saman er unnin tillaga að breytingu aðalskipulags. Breytingin verður auglýst að lágmarki í sex vikur ásamt umhverfismatsskýrslu. Að því loknu fer fram umræða í skipulags- og byggingarnefnd og sveitarstjórn og er þá samþykkt til auglýsingar.

Í umhverfismati eru kostir og gallar hvers leiðarvals sem fram koma í lýsingu bornir saman og eftir atvikum aðrar leiðir. Ákvörðun leiðarvals byggir svo á niðurstöðu umhverfismatsskýrslu. Þá þarf að framkvæma nýtt kostnaðarmat og sjá til þess að fjárveiting liggi fyrir í samgönguáætlun og mögulega senda inn fyrirspurn um matsskyldu framkvæmdarinnar.

 Áður en kemur að endanlegri ákvörðun og framkvæmdum á eftir að fara fram  kynning og umræða af hálfu sveitarfélagsins.

 

 

 

 

Mynd tekin af www.mbl.is

 


Share: