Ákveðið hefur verið að ráða Þórunni Kjartansdóttur í starf forstöðumanns menningarmála í Borgarbyggð. Þórunn hefur góða þekkingu og reynslu í málaflokknum, en hún er með meistarapróf í hagnýtri þjóðfræði og BA- gráðu í þjóðfræði, einnig er hún með kennsluréttindi.
Þórunn hefur undanfarið starfað sem kennari í Grunnskólanum í Borgarnesi. Hún hefur einnig verið stundakennari og leiðbeinandi í þjóðfræðideild Háskóla Íslands og starfað í Þjóðminjasafni Íslands, Byggðarsafni Snæfellinga og Stofnun Árna Magnússonar.
Þórunn er virk í félagsstörfum en hún hefur gegnt stöðu formanns í félagi þjóðfræðinga á Íslandi, sat í ritstjórn Kreddu – vefrit þjóðfræðinema, hefur verið trúnaðarmaður kennara við Grunnskólann í Borgarnesi og verið í skólaráði í sama skóla.
Alls bárust 16 umsóknir um starfið og er umsækjendum þakkaður áhugi á starfinu.
Borgarbyggð býður Þórunni hjartanlega velkomna til starfa.