Þorsteinn Eyþórsson hlýtur styrk frá Borgarbyggð

júní 25, 2022
Featured image for “Þorsteinn Eyþórsson hlýtur styrk frá Borgarbyggð”

10. Landsmót 50+ UMFÍ er nú haldið í Borgarnesi dagana 24. – 26. júní. Við setningu mótsins sem fram fór í Hjálmakletti í gær veitti Eðvar Ólafur Traustason formaður fræðslunefndar og sveitarstjórnarfulltrúi, Þorsteini Eyþórssyni styrk fyrir hönd Borgarbyggðar að upphæð 200.000 kr. 

Í minningu tengdasonar síns ákvað Þorsteinn að hjóla Vestfjarðahringinn í júní til styrktar Píeta samtökunum. Samtökin sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða ásamt því að styðja við aðstandendur. Þorsteinn lagði af stað þann 12. júní sl. og kláraði verkefnið á níu dögum, þá búinn að hjóla 755 km eða um 84 km að meðaltali á dag. Einstakt afrek hjá nærri sjötugum manni sem þá var nýbúinn að jafna sig á Covid.

Eðvar minnist á í ræðu sinni að lýðheilsa þjóðarinnar er sífellt að batna og er Steini gott dæmi um það. Hann vill einnig leggja til að orðatiltækinu allt er fertugum fært verði breytt í allt er sjötugum fært. Að lokum var risið upp úr sætum og klappað vel fyrir afreki Þorsteins meðan hann lagði leið sína upp á svið til þess að taka við styrkveitingunni. 


Share: