„Það þarf samtal til að öðlast skilning, ná sátt og byggja upp traust“

febrúar 2, 2018
Featured image for “„Það þarf samtal til að öðlast skilning, ná sátt og byggja upp traust“”

Fundur um upplýsingamiðlun, samráð og framsækni í Borgarbyggð  Fræðslu- og umræðufundur um upplýsingamiðlun og samráð við íbúa var haldinn í Hjálmakletti í Borgarbyggð þann 30. janúar sl. Hjá Borgarbyggð er nú unnið að mótun stefnu um upplýsingamiðlun og samráð við íbúa og síðastliðinn þriðjudag var boðið til opins fundar, til að heyra sjónarmið íbúa og ræða hvernig mætti gera betur. Mæting var einstaklega góð og um fjörutíu manns á breiðum aldri, íbúar, kjörnir sveitarstjórnarfulltrúar og starfsmenn sveitarfélagsins, tóku virkan þátt í umræðum. Fundinum var streymt í gegnum Facebook síðu Borgarbyggðar og var hægt að setja inn skilaboð þar.  Samtals voru því yfir 60 manns sem tóku þátt í fundinum með einum eða öðrum hætti.   Þetta er í fyrsta sinn sem íbúafundi í Borgarbyggð er streymt, en áreiðanlega ekki það síðasta. Útsendingin var hluti af Improve verkefninu, um nýsköpun í tæknidrifnum lausnum í opinberri stjórnsýslu sem Borgarbyggð tekur þátt í ásamt Háskólanum á Bifröst. Allir viðstaddir gátu stungið upp á málefnum sem síðan voru rædd í smærri hópum. Rætt var um upplýsingagjöf, aðkomu íbúa að ákvörðunum, skipulagsmál og virkni íbúa. Meðal annars kom fram að forsendur fyrir miðlun upplýsinga hafi breyst mikið með tilkomu samfélagsmiðla og að skilgreina þurfi þennan þátt betur. Þátttakendur lýstu áhuga á að íbúum verði í vaxandi mæli gefinn kostur á aðkomu að ákvörðunum, að kallað verði eftir sem flestum sjónarmiðum t.d. með fundum og skoðanakönnunum og að rökstuðningur ákvarðana í skipulagsmálum verði kynntur íbúum. Loks minntu þátttakendur á að ábyrgðin er ekki einungis sveitarfélagsins, heldur líka íbúa sjálfra og að mikilvægt sé að þau eldri séu þeim yngri gott fordæmi. Sigurborg Kr. Hannesdóttir ráðgjafi hjá ILDI hafði umsjón með fundinum og fór jafnframt yfir hvað einkennir vel heppnað samráð við íbúa. Í lok fundar var spurt, hvers vegna Borgarbyggð ætti að leggja áherslu á að gera enn betur varðandi upplýsingamál og samráð. Þar kom m.a. fram að samtal er grundvöllur trausts, að gagnsæi og heiðarleiki skiptir máli, að sveitarfélagið og íbúarnir eru eitt og markmið allra má draga saman í setningunni „Betri og ánægðari Borgarbyggð“. Nú mun Upplýsinga- og lýðræðisnefnd, undir forystu Magnúsar Smára Snorrasonar, vinna úr efni og niðurstöðum fundarins og ábendingum sem komu fram í gegnum Facebook,  inn í stefnumótun í Upplýsinga- og lýðræðismálum hjá Borgarbyggð.


Share: