Teymiskennsla og betri bekkjarbragur í skólum Borgarbyggðar

ágúst 20, 2018
Featured image for “Teymiskennsla og betri bekkjarbragur í skólum Borgarbyggðar”

Stjórnendur, kennarar og annað starfsfólk grunnskóla Borgarbyggðar hafa nýtt endurmenntunar- og starfsdaga vel í upphafi skólaársins 2018-2019.

Margir þeirra sótti ráðstefnu á vegum Samtaka áhugafólks um skólaþróun um teymiskennslu undir yfirskriftinni „Ber er hver að baki …“ í Ingunnarskóla í Reykjavík þann 14. ágúst sl. Vinnustofunni stýrði dr. Andrea Honigsfeld en hún hefur skrifað fjórar bækur um teymiskennslu.

Þann 15. ágúst var haldinn sameiginlegur starfsdagur Grunnskólans í Borgarnesi og Grunnskóla Borgarfjarðar á Varmalandi undir stjórn dr. Ingvars Sigurgeirssonar. Áhersla var lögð á hvernig hægt sé að gera góðan bekkjarbrag betri.

Vanda Sigurgeirsdóttir frá Háskóla Íslands fjallaði um hvernig kennarar geta notað hópefli og samvinnuleiki til að efla bekkjaranda og skólabrag. Dagskráin var að hluta fræðileg en mest áhersla var lögð á að veita kennurum hagnýt verkfæri. Einnig gátu þátttakendur valið á milli þriggja stuttra námskeiða: Ása Helga Ragnarsdóttir leikari og aðjúnkt fjallaði um leiki og leiklist til að efla bekkjarbrag. Lilja M. Jónsdóttir lektor bauð námskeið um hvernig efla má bekkjarbrag á mið- og unglingastigi með lýðræðislegum kennsluháttum – og fleiri leiðum. Kristín Lilliendahl aðjúnkt og ráðgjafi hjá Erindi leiðbeindi um stuðning við nemendur í vanda og samskipti við foreldra.

Dreifðu kennarar sér á vel á námskeiðin svo að fræðslan nýttist öllum starfsstöðvum sem best.

Báðir viðburðirnir voru vel sóttir og þóttu afar vel heppnaðir. Markmið þeirra var að veita kennurum og öðru starfsfólki gott veganesti í upphafi skólaárs. Verkefninu verður fylgt eftir í vetur undir verkstjórn dr. Ingvars Sigurgeirssonar frá menntavísindasviði Háskóla Íslands.

Þeim sem vilja fræðast um þetta verkefni má benda á þessa vefsíðu: http://skolastofan.is/…/betri-bekkjarbragur-verkefni-med-s…/

 


Share: