Sýning sem gefur tilefni til að hlæja og hugsa

nóvember 8, 2006
Leikdeild Ungmennafélagsins Íslendings frumsýndi leikritið „Maður í mislitum sokkum“ s.l. laugardagskvöld og eru sýningar áætlaðar út nóvember. Leikritið er sýnt í félagsheimilinu Brún í Bæjarsveit. Leikstjóri sýningarinnar er Ása Hlín Svavarsdóttir, en alls taka átta leikarar þátt í sýningunni: Katrín Jónsdóttir, Friðrik Aspelund, Jón Eiríkur Einarsson, Elísabet Axelsdóttir, Þórunn Harðardóttir, Valdimar Reynisson, Auður Lilja Arnþórsdóttir og Þórunn Pétursdóttir. Frumsýning tókst frábærlega vel fyrir fullu húsi og skemmtu áhorfendur sér besta og var mikið hlegið. Næstu sýningar eru föstudags-, laugardags- og sunnudagskvöld kl. 21 (10, 11. og 12. nóvember).
Í leikrýni sinni um verkið á vef Skessuhornsins (ww.skessuhorn.is) í gær segir Bjarni Guðmundsson m.a: „…Verkið er öðru fremur gleðileikur um gamalt fólk og ungt með alvarlegum undirtóni þó. ….Það er meira en reisunnar virði að skreppa í félagsheimilið Brún og njóta kvöldstundar við þetta góða verk Arnmundar Backmans, Ásu Hlínar, leikhópsins og hins fjölmarga aðstoðarfólks er að sýningunni kemur. Hún gefur bæði tilefni til þess að hlæja og hugsa. Og ekki spillir að í hléinu má njóta kvenfélagskaffis og þjóðlegs meðlætis.“

Share: