Leikskólakennararnir Aðalheiður Kristjánsdóttir í Andabæ og Dagný Vilhjálmsdóttir á Hnoðrabóli kynntu M.Ed. rannsóknir sínar fyrir stjórnendum leikskóla og fulltrúum Franklin Covey á Íslandi í Hjálmakletti miðvikudaginn 13. júní sl. við góðar undirtektir.
Markmið rannsóknar Dagnýjar var að skoða hvaða sýn deildarstjórar, sem starfa í leikskólum og vinna út frá hugmyndafræði Leiðtogans í mér, hafa á forystu (e. leadership) og forystuhlutverk sitt. Leitað var eftir sýn deildarstjóranna á starf sitt, hvað hafði áhrif á það, hvað var jákvætt og hvað var neikvætt, hvernig þeir tókust á við ágreiningsmál og hvaða áherslur þeir höfðu varðandi stjórnun deildarinnar. Meginniðurstöður benda til þess að þeir deildarstjórar sem störfuðu í leikskólum sem unnu eftir hugmyndafræði Leiðtogans í mér væru meðvitaðari um þætti sem hugmyndafræðin lagði áherslu á líkt og frumkvæði, markmiðssetningu, samvinnu og að rækta sjálfan sig bæði í starfi og í sínu persónulega lífi. Hugmyndafræði Leiðtogans í mér virðist því nýtast starfsfólki leikskóla til að efla forystu- og leiðtogahæfni sína. Það getur síðan haft jákvæð áhrif á starf leikskólans og hjálpað til við þróun faglegs lærdómssamfélags.
Aðalheiður fjallaði um sýn tíu mæðra á skólaþróunarverkefnið Leiðtoginn í mér en markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á reynslu og skilning foreldra á verkefninu og hugmyndafræðinni sem liggur að baki. Helstu niðurstöður eru þær að mæðurnar voru allar meðvitaðar um að leikskóli barna þeirra starfaði eftir hugmyndafræðinni um Leiðtogann í mér og því virtust helstu upplýsingar um verkefnið skila sér til þeirra. Þær voru flestar jákvæðar gagnvart leikskólastarfinu almennt en reynsla þeirra og upplifun af hugmyndafræðinni var hins vegar mis mikil. Slíkt bendir til að betri upplýsingar vanti um verkefnið og hvernig hægt er að vinna með það með börnunum.
Í öllum leikskólum í Borgarbyggð er unnið eftir hugmyndafræði Leiðtogans í mér. Nánari upplýsingar um verkefnið má nálgast á: https://www.theleaderinme.org/