Sveitarstjórn Borgarbyggðar samþykkti ályktun á fundi sínum þann 12. desember síðastliðinn þar sem mótmælt er harðlega þeim áformum, að leggja stjórn Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri undir Háskóla Íslands.
Ályktunin sveitarstjórnar er svohljóðandi:
„Sveitarstjórn Borgarbyggðar ítrekar enn mikilvægi þess að Landbúnaðarháskóli Íslands haldi sjálfstæði sínu og að skólanum verði tryggðar fjárveitingar til að geta sinnt hlutverki sínu áfram sem sjálfstæður skóli.
Sveitarstjórn Borgarbyggðar leggst alfarið gegn þeim hugmyndum að Landbúnaðarháskólinn fari undir stjórn Háskóla Íslands og óttast að með því dragi verulega úr umfangi starfseminnar á Hvanneyri og þar með væri vegið að atvinnulífi í Borgarbyggð og menntunarmöguleikum þjóðarinnar.
Nýleg gæðaúttekt sýnir óyggjandi að gæði námsins á Hvanneyri standist alla staðla og því falla þau rök sem hafa verið nefnd að fagmennsku skorti. Einnig hefur verið sýnt fram á að fjárhagslegur ávinningur er enginn, frekar að það komi til viðbótarkostnaðar.
Því hafnar sveitarstjórn alfarið hugmyndum um sameiningu LBHÍ og HÍ og hvetur mennta- og menningarmálaráðherra til að hlusta á þau fjölmörgu rök sem fram hafa komið og endurskoða afstöðu sína.“