Svæðislandvörður á Vesturlandi

mars 5, 2019
Featured image for “Svæðislandvörður á Vesturlandi”

Í byrjun febrúar síðastliðins var staða svæðislandvarðar Vesturlands gerð að heilsársstöðu og Þórhildur María Kristinsdóttir ráðin í starfið. Aðsókn ferðamanna á Vesturland hefur aukist verulega undanfarin ár og full þörf var talin á að sinna svæðinu allt árið. Störf landvarða heyra undir Umhverfisstofnun og eru þau mikilvægur þáttur í því að fylgjast með breytingum sem verða á náttúrunni og að grípa inni þegar þörf er á hvort sem er vegna ágangs ferðamanna eða vegna náttúrlegra breytinga. Starf landvarðar á Vesturlandi felst því í að hafa eftirlit og umsjón með friðlýstum svæðum á starfssvæði sínu sem nær frá minni Hvalfjarðar að sunnanverðu og að Snæfellsnesi að norðanverðu, ásamt hálendinu ofan Borgarfjarðar. Til þessa hefur landvörður sinnt svæðinu hluta úr ári og þá fyrst og fremst yfir sumartímann.

„Starfssvæðið er fjölbreytt og umfangsmikið, sem gerir starfið bæði krefjandi og skemmtilegt,“ segir Þórhildur. Hún mun hafa aðsetur í Reykholti í húsnæði Borgarbyggðar sem sambyggt er slökkvistöðinni. Til hennar eru gestir velkomnir til spjalls og ráðagerða um hag og framtíð friðlýstra svæða á starfssvæðinu.


Share: