Sumarhugleiðing til foreldra

júní 30, 2011
Sumarið er tíminn!
Sumarhugleiðing til foreldra unglinga í Borgarbyggð
Samstarfshópur um forvarnir í Borgarbyggð og SAMAN hópurinn sendir ykkur eftirfarandi hugleiðingu til að minna á mikilvægi samveru foreldra og unglinga.
Allan veturinn hlökkum við til sumarsins sem er tími birtu, gleði og frelsis. Flestir unglingarnir okkar blómstra og finnst þeir vera færir í flestan sjó. En frelsið getur verið vandmeðfarið.
Til þess að unglingarnir njóti gleðinnar sem sumarið hefur upp á að bjóða eru ákveðin atriði afar mikilvæg. Eitt það mikilvægasta er að hafa gott samband við foreldra sína. Áratugalangar rannsóknir sýna að þau ungmenni sem verja tíma með foreldrum og fjölskyldum sínum og taka þátt í íþróttum eða æskulýðsstarfi eru ólíklegri til að hefja neyslu áfengis og fíkniefna á unglingsárum. Rannsóknir sýna einnig að því lengur sem ungmenni sniðganga áfengi því ólíklegra er að þau ánetjist fíkniefnum.
Á forvarnardeginum 2010 kom fram að unglingar telja stuðning foreldra næst mikilvægasta áhrifaþáttinn, á eftir þátttöku í íþrótta og æskulýðsstarfi, til þess að byrja ekki að drekka á unglingsárum.
Eftirfarandi fullyrðing er eitt af svörum unglinganna sem tóku þátt í Forvarnardeginum 2010 við spurninunni um hvað þeir græði á því að drekka ekki á unglingsárunum: „Betri framtíð, færri mistök, minni líkur á áfengisvanda, heilbrigðara líf“.
Munum 18 ára ábyrgð.
Verum góðar fyrirmyndir og höfum gaman saman!
Með ósk um ánægjulegt sumar með unglingunum ykkar
F.h. Samstarfshóps um forvarnir í Borgarbyggð
og SAMAN hópsins
Inga Vildís Bjarnadóttir forvarnarfulltrúi Borgarbyggðar
 

Share: