Styrkur úr Framkvæmdasjóði Ferðamannastaða, – Söguhringur

apríl 8, 2016

Borgarbyggð sótti um styrk í framkvæmdasjóð ferðamannastaða í samstarfi við Hollvinasamtök Borgarness og atvinnuráðgjafa SSV og fékk úthlutað 7.880.000.- Unnið hefur verið með hugmyndina um Söguhringinn í mörg ár, en hann var hannaður fyrst árið 1991. Sótt var um styrk til framkvæmda við hluta af Söguhringnum, nánar tiltekið til endurbóta á núverandi göngustíg frá íþróttasvæði að göngubrúnni sem byggð var við Suðurneskletta árið 2014. Þar sem deiliskipulag hefur ekki verið lokið á svokölluðu Brákartorgi er það ekki hluti af umsókninni. Þá var sótt um styrk til að setja upp þrjú skilti, en hönnun þeirra hefur einnig verið í vinnslu að undanförnu, ásamt því að fara í sérstakt átak á Búðarkletti með það að markmiði að auðvelda aðgengi upp að minnismerkinu um Brák, draga úr jarðvegseyðingu og stuðla að endurheimt náttúrulegs gróðurfars.

Með styrknum er áætlað að leggja breiðan varanlegan stíg sem ber þá miklu umferð sem notar svæðið, með áherslu á aðgengi fyrir alla. Lagðar verða Ecoraster jarðvegsgrindur í stíginn til að tryggja góða endingu. Þessar grindur eru úr endurunnu plasti og eru að fullu endurvinnanlegar. Þær eru með LEED vottun (Leadership in Energy & Environmental design) og hafa m.a. verið notaðar í þjóðgarðinum Snæfellsjökli og við Mývatn.

Á öllu svæðinu verður unnið að því að draga úr álagi á náttúru og koma í veg fyrir gróðureyðingu.

Áætlað er að framkvæmdir geti hafist um leið og frost fer úr jörðu og áætlað er að framkvæmdum verði að fullu lokið á haustdögum.

Sjá má teikningar á næstu blaðsíðum.


Share: