Styrktarsýning á Brák

september 21, 2009
 
Fimmtudagskvöldið 24. október verður sérstök styrktarsýning í Landnámssetrinu á leikritinu Brák eftir Brynhildi Guðjónsdóttur. Allur ágóði af sýningunni rennur til endurhæfingardeildar Grensásspítala og enn eru til lausir miðar.
Brák er einleikur í fullri lengd eftir Brynhildi Guðjónsdóttur. Verkið er sérstaklega samið fyrir Söguleikhúsið til sýninga á Söguloftinu á Landnámssetrinu í Borgarnesi. Leikritið er saga Þorgerðar Brákar, fóstru Egils Skallagrímssonar og ambáttar Skallagríms Kveldúlfssonar, unnið upp úr Egilssögu, innblásið af sagnahefð sögualdar á Íslandi og sögum þeirra fjölmörgu kvenna sem hnepptar voru í ánauð og fluttar til Íslands á Víkingaöld. Verkið varpar ennfremur ljósi á að það var ambáttin Þorgerður Brák sem fóstraði skáldskapargáfu mesta skálds Íslendinga. Sýningin byggist að mestu upp á hinu talaða orði en líka á söng og hreyfingu. Verkið er létt og skemmtilegt og höfðar til áhorfenda á öllum aldri.
 

Share: