Stofnun vinnuhóps um framtíð Háskólans á Bifröst og Landbúnaðarháskóla Íslands

janúar 2, 2014
Byggðarráð Borgarbyggðar samþykkti á fundi sínum 2. janúar að setja á stofn vinnuhóp um framtíð háskólanna í Borgarbyggð.
Óskað verður eftir aðild fulltrúa frá Háskólanum á Bifröst, Landbúnaðarháskóla Íslands, Bændasamtökum Íslands og atvinnulífinu, auk þess sem fulltrúar frá sveitarfélaginu verða í hópnum.
Verkefni hópsins er að leita allra leiða til að styrkja starfsemi Háskólans á Bifröst og Landbúnaðarháskóla Íslands með það að markmiði að þeir verði áfram sjálfstæðar og öflugar stofnanir sem hér eftir sem hingað til bjóði nemendum sínum upp á góða menntun sem er undirstaða framfara í þjóðfélaginu. Auk þess verði skoðað sérstaklega hvort skólarnir geti styrkt stöðu sína með auknu samstarfi og fetað nýjar brautir í rekstri og skipulagi.
Skólarnir hafa verið helsti vaxtarbroddurinn í Borgarbyggð undanfarin ár og starfsemi þeirra er gríðarlega mikilvæg fyrir nærumhverfi sitt. Sterk tenging þeirra við atvinnulífið kemur fram í samsetningu vinnuhópsins.
 
 

Share: