Stöðuleyfi – fréttaskot

mars 15, 2019
Featured image for “Stöðuleyfi – fréttaskot”

Byggingarfulltrúa berast reglulega fyrirspurnir frá aðilum sem íhuga að setja tímabundið niður gáma eða aðra lausafjármuni utan skipulagðra gámasvæða. Sækja þarf um stöðuleyfi til byggingarfulltrúa til að láta eftirfarandi lausafjármuni standa lengur en tvo mánuði utan slíkra svæða:

a. Hjólhýsi, á tímabilinu frá 1. október til 1. maí.

b. Gáma, báta, torgsöluhús, frístundahús í smíðum (ætlað er til flutnings) og stór samkomutjöld.

Sótt er um stöðuleyfi rafrænt í gegnum Íbúagáttina (kafli 04 undir „Umsóknir“ flipanum efst á síðunni). Stöðuleyfi eru að jafnaði veitt til 12 mánaða. Endurnýja þarf leyfið að þeim tíma liðnum.

Athugið að svokölluð gámahús falla ekki hér undir heldur flokkast þau sem mannvirki og eru byggingarleyfisskyld. Til mannvirkja teljast  einnig tímabundnar og lausar byggingar sem ætlaðar eru til svefns eða daglegrar dvalar manna í fjóra mánuði eða lengur á sama stað, svo sem starfsmannabúðir og húsvagnar. Sækja þarf um byggingarleyfi í slíkum tilfellum.

Meðal nauðsynlegra fylgigagna við gerð stöðuleyfisumsóknar:

  • Samþykki eiganda eða lóðarhafa þeirrar lóðar sem fyrirhugað er að gámurinn/hýsið standi á.
  • Uppdrættir og önnur gögn sem sýna staðsetningu, útlit og gerð, fyrirkomulag og öryggi lausafjármunanna. Ath. Alltaf er gerð krafa um einfalda afstöðumynd, en önnur hönnunargögn eftir atvikum.

Lausafjármuni skal staðsetja þannig að almenningi stafi ekki hætta af og ekki sé hætta á að eldur geti borist frá þeim í aðliggjandi hús. Ennfremur skal þess gætt að aðgengi slökkviliðs að aðliggjandi húsum sé ekki torveldað. Handhafi stöðuleyfis er ábyrgur fyrir því að ekki skapist hætta vegna lausafjármuna og er leyfisveitanda heimilt að krefja eiganda um gögn og rökstuðning þar að lútandi.

Handhafi stöðuleyfis er ábyrgur fyrir því að hreinlætisaðstaða í og við lausafjármuni sem falla undir þessa grein uppfylli ákvæði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og ákvæði laga um fráveitur og laga, reglugerða og reglna um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum eftir því sem við á hverju sinni.

Leiðbeiningar fyrir stöðuleyfi frá Mannvirkjastofnun: http://www.mannvirkjastofnun.is/library/Skrar/Byggingarsvid/Leidbeiningarblod/2.6.1%20Ums%C3%B3kn%20um%20st%C3%B6%C3%B0uleyfi%20-1.1.pdf Gjaldskrá, Byggingarleyfis- og þjónustugjöld byggingarfulltrúa.   https://borgarbyggd.is/wp-content/uploads/2019/01/Gjaldskr%C3%A1-byggingarleyfis-og-%C3%BEj%C3%B3nustugjalda-byggingafulltr.pdf


Share: